Frakkar hafa endurheimt tvo leikmenn fyrir leikinn gegn Svartfjallalandi á Evrópumóti karla í handknattleik en viðureign liðanna hefst kl. 19.30 í Búdapest.
Karl Konan, lykilmaður í varnarleik Frakka, og Ludovic Fabregas, línumaðurinn reyndu, misstu af leiknum gegn Íslandi á laugardaginn, Konan vegna kórónuveirunnar og Fabregas vegna meiðsla, en þeir eru í hópnum hjá Frökkum fyrir leikinn í kvöld.
Frakkar eru með 4 stig eins og Íslendingar og komast í góða stöðu í öðru sætinu með sigri í kvöld. Svartfjallaland er með 2 stig en á möguleika á að komast í undanúrslitin, með því að vinna Frakkland og Ísland í tveimur síðustu leikjum sínum.