Elliði Snær Viðarsson, leikmaður íslenska karlalandsliðsins í handbolta, var ósáttur við spilamennsku liðsins í 22:23-tapi gegn Króatíu á EM 2022 í Búdapest í Ungverjalandi í dag.
„Tilfinningarnar eru bara hörmulegar. Þetta var lélegt hjá okkur, við komum frekar þungir á okkur inn í þennan leik í dag.
Þetta var langt frá því að vera nógu gott. Ég er fyrst og fremst mjög óánægður með sjálfan mig eftir þennan leik,“ sagði Elliði Snær í samtali við RÚV eftir leik.
Króatía náði fimm marka forystu, 14:19, í síðari hálfleik áður en Ísland kom til sneru taflinu við á ný og komust einu marki yfir, 21:22, áður en Króatía skoraði síðustu tvö mörkin í leiknum og tryggði sér sigur.
„Þetta fellur á einu marki, þetta er ekki meira en það. Ég er mjög stoltur af liðinu, við sýndum mjög góðan karakter með því að koma til baka en því miður dugði það ekki í dag,“ bætti hann við.
Spurður hvernig líkamlegt ástand hans væri eftir mikil átök í undanförnum leikjum, sem eru spilaðir á tveggja daga fresti, sagði Elliði Snær:
„Skrokkurinn er fínn. Það er ekkert í boði að væla yfir honum, það er annar leikur eftir tvo daga og það er bara algjör úrslitaleikur. Ef maður helst Covid-frír þangað til þýðir ekkert að væla yfir skrokknum.“
Ísland mætir Svartfjallalandi á miðvikudaginn kemur í lokaleik liðanna í milliriðli 1.
Með sigri í þeim leik og hagstæðum úrslitum úr leik Danmerkur og Frakklands tryggir Ísland sér sæti í undanúrslitum EM.