Ivan Martinovic, örvhenta skyttan í liði Króata, sagði eftir sigurinn á Íslendingum á EM í Búdapest í kvöld, 23:22, að þeir hefðu ætlað að sýna hvað byggi í liðinu eftir töp í undanförnum leikjum.
„Við gefumst aldrei upp og berjumst til leiksloka. Við vildum í dag sýna stuðningsfólki okkar hversu mjög við þráum að sigra. Guði sé lof að Ante Gadza skoraði úr síðasta færinu sínu og við náðum að vinna þennan magnaða leik," sagði Martinovic á heimasíðu mótsins.
Martinovic er 24 ára gamall og leikur með Hannover-Burgdorf í Þýskalandi en hann skoraði fimm mörk í leiknum í dag.