Alfreð Gíslason þjálfari Þjóðverja hefur aðeins þrettán leikmenn til umráða í lokaleik liðsins á Evrópumótinu í handknattleik í dag en Þýskaland mætir Rússlandi í Bratislava klukkan 17.
Þýska liðið hefur farið verst allra út úr kórónuveirusmitum og Alfreð hefur notað samtals 28 leikmenn í sex leikjum á mótinu en fimmtán þeirra eru ekki til staðar í leiknum gegn Rússum í dag. Sextán leikmenn eru í hópnum í hverjum leik þegar allt er eðlilegt.
Rússar eru með þrjú stig og Þjóðverjar tvö stig í fjórða og fimmta sæti milliriðilsins og aðeins stoltið og endanlegt sæti sem eru í húfi í leiknum í dag.