Dagur Gautason, leikmaður Stjörnunnar í úrvalsdeild karla í handknattleik, hefur verið kallaður inn í íslenska landsliðshópinn sem tekur þátt í Evrópumótinu sem fram fer í Ungverjalandi og Slóvakíu. Þetta kom fram í fréttatilkynningu sem HSÍ sendi frá sér í dag.
Alls hafa ellefu leikmenn íslenska liðsins greinst með kórónuveiruna síðan á miðvikudaginn í síðustu viku og hafa einungis fjórtán leikmenn verið á skýrslu hjá liðinu í síðustu leikjum.
„Guðmundur Guðmundsson hefur ákveðið að kalla þá Dag Gautason leikmann Stjörnunnar og Bjarni Ófeigur Valdimarsson leikmann FK Skövde HK til móts við landsliðið,“ segir í tilkynningu HSÍ.
„Dagur og Bjarni koma til Búdapest í kvöld og í fyrramálið,“ segir ennfremur í tilkynningunni en Ísland mætir Svartfjallandi í lokaleik sínum í milliriðli I í Búdapest á morgun og þarf á sigri að halda til þess að eiga von um sæti í undanúrslitum keppninnar.