Bjarni Ófeigur Valdimarsson er á leið til Búdapest þar sem hann mun hitta fyrir íslenska karlalandsliðið í handknattleik.
Það er Vísir.is sem greinir frá þessu. Íslenska liðið mætir Svartfjallalandi í lokaleik sínum í milliriðli I í Búdapest á Evrópumótinu sem fram fer í Ungverjalandi og Slóvakíu.
Alls hafa ellefu leikmenn íslenska liðsins greinst með kórónuveiruna síðan á miðvikudaginn í síðustu viku og hafa því einungis fjórtán leikmenn verið á skýrslu hjá liðinu í síðustu leikjum en leyfilegt er að vera með sextán leikmenn á skýrslu.
Bjarni Ófeigur, sem er 23 ára gamall, er samningsbundinn Skövde í sænsku úrvalsdeildinni en hann gekk til liðs við félagið frá FH árið 2020.
Hann hefur spilað mjög vel fyrir Skövde á tímabilinu og skorað 62 mörk í deildinni til þessa en liðið er í fimmta sæti deildarinnar með 20 stig.