Svíar vilja sleppa leiknum um 5. sætið á Evrópumóti karla í handknattleik sem fram fer í Ungverjalandi og Slóvakíu, fari svo að lið þeirra endi í 3. sæti milliriðils II.
Þetta kom fram í viðtali Daniels Vandors, fjölmiðlafulltrúa sænska liðsins, í samtali við SVT Sport.
Svíþjóð mætir Noregi í lokaleik sínum í milliriðli II í Bratislava í kvöld en liðið sem vinnur leikinn tryggir sér sæti í undanúrslitum EM.
Heimsmeistaramótið 2023 verður haldið í Póllandi og Svíþjóð og Svíar hafa því tryggt sér þátttökurétt á HM 2023 ásamt Danmörku sem er ríkjandi heimsmeistari og komnir í undanúrslit á EM en þrír farseðlar eru í boði á HM 2023 á Evrópumótinu í ár.
„Við munum biðja evrópska handknattleikssambandið um leyfi til þess að sleppa leiknum,“ sagði Vandor í samtali við SVT Sport.
„Við myndum þurfa að ferðast frá Slóvakíu til Ungverjalands í aðra „búbblu“ fyrir leik sem skiptir okkur nákvæmlega engu máli.
Að sama skapi ætlum við okkur auðvitað sigur gegn Noregi og sæti í undanúrslitunum,“ bætti Vandor við.