Vinstri hornamaðurinn Bjarki Már Elísson sagði það hafa verið ólýsanlegt að komast aftur út á handboltadúkinn en að sama skapi hafi verið skelfilegt að horfa á síðustu leiki í sjónvarpi og geta ekki hjálpað til.
Bjarki var iðinn við kolann gegn Svartfjallalandi og skoraði 8 mörk í leiknum. Mbl.is spurði Bjarki hafi verið að koma beint úr litlu herbergi út á völlinn?
„Það var ólýsanlegt. Ég er nánast orðlaus yfir því hversu skemmtilegt var að spila leikinn. Einangrunin er eitt það erfiðasta sem ég hef gert á ævinni. Það var lítið sofið, kannski vegna þess að maður var alltaf að bíða eftir einhverjum skimunum og einhverjum niðurstöðum sem litu bara ekkert vel út á köflum. Vonandi helst ég neikvæður því við höfum séð einn leikmann koma inn og fara út aftur,“ sagði Bjarki sem horfði á leikina gegn handboltastórveldinum Danmörku, Frakklandi og Króatíu í sjónvarpi á herberginu.
„Strákarnir voru góðir og það var gaman að sjá það. En þegar maður á sjálfur að vera að spila þá hugsar maður aðallega um það. Ég naut Frakkaleiksins því við unnum hann og vorum með forystu en á móti Króatíu þá langaði mann svo að vera inn á og hjálpa til. Vonandi er þetta bara búið og vonandi þurfum við aldrei að pæla í þessu aftur.“
Sigurinn gegn Svartfjallandi var afar sannfærandi eftir að Ísland náði góðri forystu strax í upphafi leiks. Enn einn sigur leiðsheildarinnar í mótinu.
„Við mættum fáránlega einbeittir til leiks. Með undanúrslitamöguleikann í huga þá var ekkert að fara að stoppa okkur. Það var gott að við komum okkur í afgerandi stöðu á fyrstu tíu til fimmtán mínútunum og sigldum þessu svo heim,“ sagði Bjarki Már Elísson í samtali við mbl.is.