Magnús Óli Magnússon fékk að spreyta sig gegn Svartfjallalandi í dag og var ógnandi í gegnumbrotunum. Voru þetta fyrstu mínúturnar hjá Magnúsi Óla á EM en hann býr að þeirri reynslu að hafa komið við sögu á HM í fyrra.
Hann og Vignir Stefánsson komu frá Val til móts við landsliðið eftir að kórónuveiran stakk sér niður í íslenska hópnum á EM í Búdapest.
„Loksins segi ég en það var frábært að fara inn á. Ég nýtti mér það vel og fór mikið einn á einn [sækja maður á móti manni þegar svæði skapast]. Elvar Örn var að koma beint úr einangrun og eðlilega þurfti hann að hvíla eitthvað í leiknum. Ég fékk alla vega tvö víti og gaf einhverjar stoðsendingar. Ég hefði viljað skora en það kemur vonandi næst,“ sagði Magnús Óli léttur þegar mbl.is tók hann tali þegar úrslitin lágu fyrir.
Sigur íslenska liðsins var glæsilegur og mjög öruggur. „Við vorum með leikáætlun sem svínvirkaði og við héldum í hana. Eins og allir sáu þá vorum við á fullu allan tímann. Það kom kafli þar sem við vorum ekki góðir en það stóð ekki lengi. Við náðum fljótt að núllstilla okkur og þurftum ekki að hafa miklar áhyggjur af því,“ sagði Magnús Óli.
Í kvöld geta Danir með sigri á Frökkum tryggt Íslandi sæti í undanúrslitum EM. Íslensku landsliðsmennirnir munu að sjálfsögðu horfa saman á leikinn í kvöld í góðri stemningu. Eða hvað? Nei alveg rétt það er heimsfaraldur í gangi. Landsliðsmennirnir eru hver í sínu horni vegna sóttvarna.
„Maður horfir á þennan blessaða leik og vonandi fer hann eins og allir vilja. Við sjáum bara til hvernig hann fer. Við verðum einir inni á herbergjum að horfa,“ sagði Magnús Óli í samtali við mbl.is.