Ísland vann magnaðan 34:24-sigur á Svartfjallalandi í lokaleik liðanna í milliriðli 1 á EM 2022 í Búdapest í Ungverjalandi í dag. Ísland mun að minnsta kosti leika um 5. sætið á mótinu en þarf að reiða sig á danskan sigur gegn Frakklandi í kvöld til þess að komast í undanúrslit.
Ísland byrjaði leikinn af miklum krafti og komst í 3:0 snemma leiks. Fyrsta mark Svartfellinga kom ekki fyrr en eftir tæplega sjö mínútna leik og ljóst að íslenska vörnin var tilbúin í verkefnið og gott betur en það.
Íslenska liðið herti enn tökin og komst í 6:1 áður en Svartfjallaland skoraði sitt annað mark eftir tæpar 12 mínútur.
Svartfjallalandi tókst að halda muninum í fjórum mörkum um stundarsakir en eftir að liðið minnkaði muninn niður í 8:4 bætti Ísland áfram í og skoraði fjögur mörk í röð. Staðan orðin 12:4 og munurinn átta mörk.
Í næstu sóknum tapaði Ísland boltanum þrívegis í röð þar sem Svartfellingar skoruðu þrjú mörk í röð og minnkuðu muninn þar með niður í fimm mörk, 12:7.
Á þeim tímapunkti var ekki mikið eftir af fyrri hálfleiknum en Íslendingar tóku enn eina frábæru syrpuna þar sem sóknarleikurinn gekk fullkomlega upp, auk þess sem Viktor Gísli Hallgrímsson lokaði markinu.
Skoraði Ísland fimm mörk í röð á skömmum tíma og náði þannig mest tíu marka forystu, 17:7. Svartfellingar skoruðu síðasta mark fyrri hálfleiks og staðan því 17:8 í leikhléi.
Síðari hálfleikur fór ekki jafn vel af stað hjá íslenska liðinu og gekk lítið í sókn og vörn. Á meðan var vörn Svartfellinga föst fyrir.
Tókst þeim mest að minnka muninn niður í fimm mörk, 21:16. Þá tók Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari leikhlé og batnaði spilamennska Íslands talsvert í kjölfarið enda tókst liðinu að ná þægilegri sjö til átta marka forystu á ný.
Íslenska liðið var þá komið með blóð á tennurnar og bætti einungis í undir lokin. Niðurstaðan að lokum gífurlega sterkur tíu marka sigur, 34:24, í afskaplega mikilvægum leik.
Ómar Ingi Magnússon fór fyrir íslenska liðinu og skoraði 11 mörk auk þess að gefa fjórar stoðsendingar.
Bjarki Már fór þá sömuleiðis á kostum í endurkomu sinni eftir kórónuveirusmit og skoraði átta mörk úr jafnmörgum skotum.
Fyrirliðinn Aron Pálmarsson sneri sömuleiðis aftur eftir smit og skoraði fyrstu tvö mörk Íslands í leiknum en meiddist svo á fimmtu mínútu og tók ekki frekari þátt í leiknum.
Viktor Gísli varði tíu skot í leiknum, þar af sjö í fyrri hálfleik, og var með 34,5 prósent markvörslu.
Vinstri hornamaðurinn Milos Vujovic fór fyrir Svartfellingum og skoraði tæplega helming marka liðsins, 11 talsins. Var hann valinn maður leiksins að honum loknum.
Ísland kláraði sitt verkefni í dag með miklum glans og er að minnsta kosti búið að tryggja sér leik um 5. sætið á EM gegn Noregi. Liðið sem vinnur leikinn tryggir sér sæti á HM á næsta ári.
Í kvöld klukkan 19.30 fer fram leikur Danmerkur og Frakklands í milliriðli okkar.
Ísland þarf að treysta á danskan sigur til þess að komast í undanúrslit þar sem jafntefli eða sigur Frakka tryggir þá áfram með Dönum, en Danir eru þegar komnir áfram í undanúrslit.