Króatar fjórðu eftir jafntefli við Holland

Hollendingurinn eldsnöggi Luc Steins svífur í gegnum vörn Króata í …
Hollendingurinn eldsnöggi Luc Steins svífur í gegnum vörn Króata í leiknum í kvöld. AFP

Króatar náðu fjórða sætinu í milliriðli eitt á Evrópumóti karla í handknattleik þegar þeir gerðu jafntefli við Hollendinga í næstsíðasta leik riðilsins í Búdapest, 28:28.

Liðin enda þar með bæði með 3 stig í fjórða og fimmta sæti riðilsins en Króatar eru fyrir ofan Hollendinga á markatölu og enda í áttunda sæti mótsins í heild en Hollendingar í tíunda sæti sem er þeirra besti árangur frá upphafi á stórmóti. Það kemur því í hlut Svartfellinga að enda í neðsta sæti riðilsins með 2 stig og í ellefta sæti mótsins.

Hollendingar, enn án markaskorarans Kay Smits og þjálfarans Erlings Richardssonar sem eru í einangrun vegna kórónuveirunnar, voru yfir mestallan fyrri hálfleikinn og með forystu að honum loknum, 15:13. 

Króatar náðu undirtökum í seinni hálfleik og voru þremur mörkum yfir, 23:20, þegar tíu mínútur voru til leiksloka og 26:23 þegar fimm mínútur voru eftir.

Hollendingar gerðu sér hinsvegar lítið fyrir og jöfnuðu metin í 27:27 og Luc Steins jafnaði í lokin, 28:28.

Steins var markahæstur Hollendinga með 6 mörk og Tom Jansen skoraði 5. Ivan Martinovic skoraði 12 mörk fyrir Króata og Marin Sipic 8.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert