Ómar Ingi Magnússon er markahæsti leikmaður Evrópumóts karla í handknattleik að milliriðlakeppninni lokinni.
Ómar hefur skorað 49 mörk í sjö leikjum íslenska liðsins, þar af 11 mörk gegn Svartfjallalandi í dag og 10 mörk í sigrinum á Frökkum, 8 gegn Ungverjum og 8 gegn Dönum.
Tveir næstu menn á eftir honum hafa lokið keppni en Arkadiusz Moryto skoraði 46 mörk fyrir Pólverja og Kay Smits 45 mörk fyrir Hollendinga.
Þá lauk Milos Vujovic keppni með Svartfjallalandi í dag en hann hefur skorað 41 mark.
Hampus Wanne hefur skorað 41 mark fyrir Svía og hann á eftir að spila tvo leiki en Ómar Ingi einn.
Sebastian Barthold hefur skorað 40 mörk fyrir Norðmenn og á einn leik eftir, gegn Íslandi.
Þar á eftir kemur Daninn Mikkel Hansen með 39 mörk. Hann hvíldi í leiknum við Frakka í kvöld en á eftir tvo leiki um helgina.
Það eru því Wanne og Hansen sem helst geta ógnað Ómari Inga sem stendur mjög vel að vígi í slagnum um markakóngstitil mótsins.