Lokaumferðin í milliriðli I á EM karla í handknattleik fer fram í MVM Dome í Búdapest í dag og í kvöld.
Ísland mætir Svartfjallandi, Króatía og Holland eigast við og í kvöld takast á Danir og Frakkar. Danir eru öruggur um sæti í undanúrslit en Ísland og Frakkland eiga möguleika að fylgja þeim í undanúrslit.
Mbl.is spurði hægri hornamanninnn Sigvalda Björn Guðjónsson í gær hvort ekki væri erfitt að ýta slíkum hugsunum frá sér?
„Það er bara ein umferð eftir og það er leikur eftir á móti Svartfjallalandi. Við þurfum að vinna þann leik. Við erum í þannig stöðu að við getum bara reynt að klára okkar og svo sjáum við til. Ef Danirnir vinna þá yrði það geggjað og við gætum þá verið komnir í undanúrslit en maður þorir ekkert að hugsa þannig núna,“ sagði Sigvaldi Björn og sér fyrir sér að leikurinn gegn Svartfjallalandi sé 50/50 leikur.
„Ég myndi segja það. Þeir eru svipaðir og Króatarnir. Þeir eru líkamlega sterkir, með góðar skyttur fyrir utan og góða línumenn. Þeir eru sennilega ekki alveg í sama gæðaflokki og Króatarnir en mjög svipað hvernig þeir spila. Við þurfum að spila sömu vörn en þurfum aðeins að skoða hvernig við gerðum þetta í sókninni á móti Króatíu. Mér fannst vanta svolítið upp á þar. Ef sóknin verður betri á móti Svartfjallalandi heldur en á móti Króatíu þá vonandi fáum við tvö stig út úr þessum leik.“
Holland og Svartfjallaland hafa ekki áður náð að komast í milliriðil á EM. Er ekki gott fyrir íþróttina að fleiri þjóðir blandi sér í baráttuna?
„Jú alveg klárlega. Það er geggjað. Nánast flest lönd í Evrópu eru orðin drullugóð í handbolta. Það er geggjað að spila jafna leiki á móti Dönum og Frökkum en þetta eru allt alvöru leikir á EM. Fyrir vikið verður miklu skemmtilegra að fylgjast með þessum mótum,“ sagði Sigvaldi Björn Guðjónsson í samtali við mbl.is