„Það hefur verið lygilegt hvernig þjálfarateymið hefur tæklað öll þessi kórónuveirusmit á EM,“ sagði Hreiðar Levý Guðmundsson, fyrrverandi landsliðsmarkvörður í handknattleik, í EM-uppgjöri Dagmála, frétta- og menningarlífsþætti Morgunblaðsins.
Alls hafa ellefu leikmenn íslenska liðsins greinst með kórónuveiruna á Evrópumótinu í Ungverjalandi og Slóvakíu.
Allir ellefu hafa verið í stórum hlutverkum innan liðsins undanfarin ár en á sama tíma hafa minni spámenn nýtt tækifærið til hins ýtrasta og spilað frábærlega í fjarveru lykilmanna.
„Strákarnir sem hafa komið inn í þetta hafa skilað sínu og það er líka komin ákveðin breidd í liðið núna,“ sagði Hreiðar.
„Eins og ég sagði áðan þá hefur kórónuveiran líka hjálpað okkur á þessu móti því það hafa aðrir leikmenn komið inn í þetta sem hefðu annars aldrei fengið þetta tækifæri og þetta hefur aukið breiddina í íslenska hópnum til muna,“ sagði Guðjón Guðmundsson, íþróttafréttamaður hjá Sýn, meðal annars fyrr í þættinum.
EM-uppgjör Dagmála má nálgast með því að smella hér.