„Það er alltaf erfitt að kyngja tapi í undanúrslitum,“ sagði Mikkel Hansen, besti handboltamaður Dana, við TV2 eftir 25:29-tap fyrir Spánverjum í undanúrslitum Evrópumótsins í gær.
„Við spiluðum einfaldlega ekki nógu vel. Við hefðum átt að vera með 3-5 marka forskot strax í byrjun en gerðum of mörg mistök og náðum ekki hraðaupphlaupunum okkar. Landin byrjaði vel í markinu en við nýttum okkur það ekki nógu vel,“ bætti Hansen við.
„Svona er þetta stundum á móti Spánverjum. Það er erfitt að spila á móti spænsku vörninni, sem verst öðruvísi en flestar aðrar varnir,“ sagði Mikkel Hansen, sem skoraði átta mörk í gær og er markahæstur á mótinu hjá danska liðinu með 48 mörk.
Danir hafa ekki lokið leik á mótinu því þeir mæta Frökkum í leik um þriðja sætið á morgun. Liðin mættust í lokaleik milliriðlanna og þá höfðu Frakkar betur og tryggðu sér sæti í undanúrslit á kostnað Íslands.