„Þjóðfélagið er með boltanum núna, ömmur og afar, og allir Íslendingar,“ sagði Guðjón Guðmundsson, íþróttafréttamaður hjá Sýn, í EM-uppgjöri Dagmála, frétta- og menningarlífsþætti Morgunblaðsins.
Íslenska karlalandsliðið í handknattleik hefur hrifið þjóðina með sér á Evrópumótinu í Ungverjalandi og Slóvakíu.
Þrátt fyrir að ellefu leikmenn liðsins hafi greinst með kórónuveiruna á mótinu var liðið nálægt því að komast í undanúrslit og leika um verðlaun á mótinu.
„Íslenska landsliðið, strákarnir okkar, hafa sameinað þjóðina í tugi ára og handbolti er okkar þjóðaríþrótt,“ sagði Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari Selfoss.
„Við sem að vinnum í kringum handboltann þurfum að tala hann upp og ég er gríðarlega ánægður með það hvað uppsveiflan í samfélaginu er okkur í hag þessa dagana,“ bætti Halldór Jóhann við.
EM-uppgjör Dagmála má nálgast með því að smella hér.