Svíar Evrópumeistarar í fimmta sinn

Niclas Ekberg (10) fagnar sigurmarkinu.
Niclas Ekberg (10) fagnar sigurmarkinu. AFP

Svíþjóð urðu í dag Evrópumeistarar karla í handknattleik með sigri á fráfarandi Evrópumeisturum frá Spáni 27:26 í úrslitaleiknum í MVM-höllinni glæsilegu í Búdapest. 

Svíar urðu þar með Evrópumeistarar í fimmta sinn en þeir hafa hins vegar þurft að bíða í tvo áratugi eftir sigri á stórmóti hjá körlunum en Svíar unnu síðast þegar þeir héldu EM árið 2002. Þeir verða svo gestgjafar á HM á næsta ári ásamt Pólverjum. 

Svíar sigruðu Frakka og Spánverjar sigruðu Dani í undanúrslitaleikjum mótsins á föstudaginn. Spánverjar áttu möguleika á að verða Evrópumeistarar í þriðja skiptið í röð en sigurgöngu þeirra á EM er lokið. Í bili að minnsta kosti. 

Leikurinn var í járnum allan tímann og hvort liðið náði upp forskoti að neinu marki. Sennilega var aldrei meira en tveggja marka munur á liðunum í leiknum. 

Spánn hafði eins marks forskot að loknum fyrri hálfleik. Fram að því höfðu Svíarnir oft verið marki yfir 13:12.

Andreas Palicka var í góðum gír í úrslitaleiknum eins og …
Andreas Palicka var í góðum gír í úrslitaleiknum eins og sjá má. AFP

Jafnt var á flestum tölum í síðari hálfleik. Svíar náðu tveggja marka forskoti þegar sex mínútur voru eftir en það var fljótt að fara. 

Spánverjar komust í góða stöðu þegar þeir fengu boltann í stöðunni 26:26. Hávörn Spánverja varði þá skot frá Jim Gottfridsson hinum útsjónarsama leikstjórnanda Svía. Spánverjar tóku leikhlé og náðu því nokkuð langri sókn. Henni lauk með lausu skoti frá Joan Canellas en Spánverjar vildu fá aukakast út á peysutog en fengu ekki. Canellas var ekki upp á sitt besta á lokamínútunni því hann braut svo af sér þegar þrjár sekúndur voru eftir og Svíar fengu vítakast. Fyrrverandi samherji Canellas hjá Kiel, Niklas Ekberg, tók vítið og skoraði af öryggi. 

Joan Canellas er 35 ára gamall og hefur átt flottan feril. Þjálfari hans hjá Kadetten Schaffhausen í Sviss þarf væntanlega að hughreysta Spánverjann eftir þessi ósköp en sá þjálfari er Aðalsteinn Eyjólfsson. 

Niclas Ekberg sat á varamannabekknum og fór aldrei inn á í hægra hornið. Þegar Svíum hafði mistekist að skora úr fyrstu tveimur vítaköstunum í leiknum var Ekberg kallaður til. Þessi 34 ára gamli leikmaður nýtti fjögur af fimm vítaköstum sem hann tók. Í eina skiptið sem varið var frá honum náði hann frákastinu og skoraði. 

Jim Gottfridsson skorar fyrsta mark úrslitaleiksins í dag fyrir Svía …
Jim Gottfridsson skorar fyrsta mark úrslitaleiksins í dag fyrir Svía gegn Spánverjum. AFP

Andreas Palicka var mikilvægur fyrir Svía eins og í undanförnum leikjum. Hann varði 13 skot en var mun öflugri í fyrri hálfleik en þeim síðari. Þá kom hann til skjalanna þegar Svíar áttu erfiðan kafla og hefðu getað misst Spánverjana frá sér.

Svíþjóð 27:26 Spánn opna loka
60. mín. Niclas Ekberg (Svíþjóð) skorar úr víti Gamli refurinn tryggir Svíum sigurinn.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert