Óttast er að Daninn Mathias Gidsel, einn af bestu leikmönnum Evrópumóts karla í handknattleik sem lauk í gær, sé með slitið krossband í hné.
Handknattleiks- og fjölmiðlamaðurinn Rasmus Boysen skýrir frá þessu á Twitter-síðu sinni og segir að beðið sé eftir staðfestingu en útlitið sé ekki gott.
Gidsel lék frábærlega í stöðu örvhentrar skyttu með Dönum og var valinn í úrvalslið mótsins í þeirri stöðu. Hann er samherji Viktors Gísla Hallgrímssonar hjá GOG í Danmörku en er búinn að semja við Füchse Berlín í Þýskalandi frá og með næsta tímabili.
Gidsel varð tólfti markahæsti leikmaður EM með 37 mörk en hann missti samt af tveimur leikjum Dana á mótinu. Hann var með frábæra skotnýtingu eða rúmlega 90 prósent. Aðeins fjögur markskot hans af 41 geiguðu á mótinu.