Slá heimsmet á fyrsta leikdegi EM

Merkur Spil-Arena í Düsseldorf þar sem Evrópumótið 2024 hefst með …
Merkur Spil-Arena í Düsseldorf þar sem Evrópumótið 2024 hefst með heimsmeti.

Ljóst er að heimsmet verður slegið í Düsseldorf í Þýskalandi miðvikudaginn 10. janúar þegar nálægt 55 þúsund áhorfendur verða á fyrstu tveimur leikjunum á Evrópumóti karla í handknattleik.

Leikirnir fara fram á Merkur Spil-Arena, stórglæsilegum knattspyrnuvelli borgarinnar, sem rúmar tæplega 55 þúsund áhorfendur í sæti og er með færanlegu þaki sem verður að sjálfsögðu yfir vellinum.

Frakkar mæta Norður-Makedóníu í upphafsleik keppninnar klukkan 17 og síðan mætast Þýskaland og Sviss klukkan 19.45 í seinni leik fyrstu umferðarinnar í A-riðlinum þar sem þessi fjögur lið eru.

Þegar er ljóst að áhorfendur verða yfir 50 þúsund og síðustu miðarnir eru í sölu þessa dagana.

Heimsmetið er líka í eigu Þjóðverja en það var sett í Frankfurt 6. september árið 2014 þegar Rhein-Neckar Löwen sigraði Hamburg, 28:26, í þýsku 1. deildinni. Þá var leikið á fótboltaleikvanginum Commerzbank Arena í Frankfurt, frammi fyrir 44.189 áhorfendum. 

Tveir Íslendingar tóku þátt í því heimsmeti, Alexander Petersson sem þá lék með Löwen og Stefán Rafn Sigurmannsson sem lék með Hamburg. Alexander var í miklum ham í leiknum og skoraði átta mörk.

Ísak Bergmann Jóhannesson, landsliðsmaður í knattspyrnu, leikur með Fortuna Düsseldorf í þýsku B-deildinni en heimavöllur liðsins er þessi sami Merkur Spil-Arena.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka