Óli Stef: Hlutirnir gerast ekki korter í stórmót

Landsliðsþjálfarinn Snorri Steinn Guðjónsson á æfingu íslenska liðsins í gær.
Landsliðsþjálfarinn Snorri Steinn Guðjónsson á æfingu íslenska liðsins í gær. mbl.is/Eyþór Árnason

„Ég er mjög vongóður um gott gengi landsliðsins á næstu árum,“ sagði Ólafur Stefánsson, fyrrverandi fyrirliði íslenska  karlalandsliðsins í handknattleik og þjálfari þýska B-deildarfélagsins Aue, í samtali við mbl.is.

Ólafur er einn besti handboltamaður sem Íslands hefur átt en hann var í lykilhlutverki þegar Ísland vann til silfurverðlauna á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008 og bronsverðlauna á EM í Austurríki árið 2010. Alls lék hann 329 landsleiki þar sem hann skoraði 1562 mörk.

Spenntur fyrir næstu mánuðum

„Við eigum möguleika á sæti á Ólympíuleikunum í París á næsta ári og menn ættu að gera allt til að berjast fyrir því sæti. Ég er mjög spenntur fyrir næstu mánuðum hjá liðinu og þetta eru allt strákar sem eru búnir að vera saman lengi. Gummi Gumm gerði mjög góða hluti með liðið og leikmennirnir eru allir á góðum aldri núna. Snorri Steinn er mjög áhugaverður þjálfari og ég er mjög spenntur að sjá hvað hann gerir með þetta lið í dag.

Ef þú ætlar að ná árangri þá gerast hlutirnir ekki korter fyrir stórmót. Þetta snýst um að menn séu með þetta fast í hausnum á sér allt árið, að þeir ætli sér að ná árangri þegar á hólminn er komið. Svo er það bara hvort hlutirnir detta með manni eða ekki og stundum er þetta stöngin inn, eða stöngin út, en ég er bjartsýnn fyrir hönd liðsins,“ sagði Ólafur í samtali við Morgunblaðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert