Stefna á Ólympíuleikana

Íslenska karlalandsliðið er á leið á EM í janúar.
Íslenska karlalandsliðið er á leið á EM í janúar. mbl.is/Eggert Johannesson

​Ísland er að vanda með í úrslitakeppni Evrópumóts karla í handbolta 2024 sem hefst í Þýskalandi 10. janúar. EM er haldið annað hvert ár, á móti heimsmeistaramótinu sem fer einnig fram annað hvert ár, á oddatölunni.

En annað hvert Evrópumót hefur enn meiri þýðingu fyrir mörg þátttökuliðanna, vegna þess að þá er um ólympíuár að ræða og stóra gulrótin fyrir marga er að tryggja sér sæti á Ólympíuleikunum. Þannig er þetta einmitt á þessu nýja ári, 2024. Ólympíuleikarnir eru haldnir í París síðsumars og þangað komast aðeins tólf útvaldar þjóðir í hvert skipti.

Leiðin á ÓL er því afar erfið sem sést best á því að þó íslenska karlalandsliðið hafi verið með á öllum Evrópu- og heimsmeistaramótum karla nema einu á þessari öld hefur liðið ekki komist á Ólympíuleikana frá árinu 2012.

Þá hafði liðið reyndar unnið það afrek að komast á þrenna Ólympíuleika í röð, 2004 í Aþenu, 2008 í Peking þar sem silfrið fræga var hengt um háls leikmanna, og svo 2012 í London þegar mikil sigurganga var stöðvuð á dramatískan hátt af Ungverjum í átta liða úrslitum.

Erfið leið til Parísar

Eins og áður sagði komast aðeins tólf lið á Ólympíuleikana hverju sinni. Fjögur lið eru með örugg sæti á leikunum í París en það eru gestgjafar Frakklands, heimsmeistarar Danmerkur, sigurvegarar undankeppninnar í Asíu sem eru Japanir, undir stjórn Dags Sigurðssonar, og Ameríkumeistarar Argentínu.

Evrópumeistararnir 2024 bætast við á mótinu sem framundan er í Þýskalandi og á sama tíma verða Afríkumeistarar krýndir í Kaíró og þeir fá sjötta ólympíusætið.

Þá eru sex sæti á lausu og um þau spila tólf þjóðir í sérstakri úrslitakeppni um miðjan mars. Til þess að komast þangað þarf Ísland að ná langt á Evrópumótinu í Þýskalandi, og alls ekki enda neðar en í níunda sæti, væntanlega ofar. Þetta ræðst þó endanlega af því hvernig öðrum liðum, sem eru örugg á leikana eða í úrslitakeppnina, vegnar á mótinu.

Í þessari tólf liða úrslitakeppni verða Spánn, Svíþjóð, Þýskaland, Noregur, Egyptaland, Ungverjaland, Brasilía og Barein, ásamt tveimur Evrópuþjóðum í viðbót og tveimur Afríkuþjóðum. Þeim verður síðan skipt í þrjá riðla þar sem tvö efstu liðin í hverjum riðli komast á Ólympíuleikana.

Það gæti orðið þrautin þyngri að ná einu af níu efstu sætunum á EM.

Greinin í heild sinni er í Tímamótum, áramótablaðinu sem fylgir Morgunblaðinu í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert