Elvar Örn Jónsson, leikmaður íslenska landsliðsins og þýska liðsins Melsungen í handknattleik, segir allt á réttri leið í bata sínum eftir að hafa ekki spilað handbolta vegna meiðsla í hálfan annan mánuð.
„Mér líður vel. Mér finnst batinn vera að ganga mjög vel. Ég hef verið með á æfingum síðustu tvo daga þannig að við erum bara mjög bjartsýnir á að þetta verði orðið gott fyrir mót.
Mér líður bara mjög vel, finn ekkert fyrir þessu. Það eina er að koma mér aftur í leikform og fá aftur tilfinninguna fyrir hlutunum.
Það tekur smá tíma en mér líður bara vel,“ sagði Elvar Örn í samtali við mbl.is fyrir æfingu landsliðsins í Safamýri í gær.
Íslenski hópurinn hélt utan til Austurríkis í morgun þar sem liðið leikur tvo vináttuleiki við heimamenn fyrir þátttöku á EM 2024 í Þýskalandi.
Spurður hvort hann hefði áhyggjur af leikforminu þegar stutt er í mót sagði Elvar Örn:
„Ég held að ég verði fljótur að ná forminu upp en auðvitað hefur maður alltaf smá áhyggjur. Maður er ekki búinn að spila handbolta í sex vikur. Maður dettur aðeins út úr þessu en ég held að þetta sé fljótt að koma aftur.
Svo eru þessir tveir vináttuleikir sem maður fær kannski einhverjar mínútur í. Það gæti hjálpað manni að fá tilfinninguna aftur og spila sig saman með strákunum.“
Leikirnir sem hann vísar til eru tveir vináttuleikir gegn Austurríki á morgun og á mánudag. Báðir fara þeir fram í Þýskalandi.
Elvari Erni líst afskaplega vel á það sem hann hefur séð á æfingum íslenska landsliðsins.
„Mér finnst við gríðarlega flottir. Fyrir áramót var ég mikið að horfa á æfingar og gera eitthvað sjálfur. Frá því sjónarhorni fannst mér þetta líta hrikalega vel út.
Það eru allir mjög einbeittir. Við erum allir að róa í sömu átt og erum með skýr markmið og ætlum að ná þeim.“
Markmið Íslands er að komast í umspil um laust sæti á Ólympíuleikunum í París.
„Það er náttúrlega draumur okkar allra að fara á Ólympíuleikana næsta sumar. Það eru allir með fulla einbeitingu á því og allir gera allt fyrir liðið, sama hversu stórt hlutverk maður fær.
Það eru allir að hugsa það sama. Maður er gríðarlega spenntur að byrja þetta mót,“ sagði hann.
Elvari Erni líst vel á nýjan landsliðsþjálfara, Snorra Stein Guðjónsson, og þær áherslubreytingar sem honum og þjálfarateymi hans fylgja.
„Þetta er öðruvísi bolti en við höfum verið að spila með landsliðinu síðustu ár. Eins og allir vita vill Snorri spila hraðan bolta þar sem er mikið um sóknarleik og hraðaupphlaup.
Það hentar þessu liði gríðarlega vel. Margir spila svona hraðan bolta með sínu félagsliði þannig að þetta kemur engum á óvart. Við erum með leikmennina til þess að spila svona.
Við erum með breiðan hóp og getum rúllað liðinu vel. Mér finnst þetta leikskipulag henta liðinu gríðarlega vel,“ sagði hann að lokum í samtali við mbl.is.