Elliði Snær Viðarsson, línu- og varnarmaður íslenska landsliðsins og þýska liðsins Gummersbach í handknattleik, kveðst geysilega spenntur fyrir EM 2024 í Þýskalandi, sem hefst eftir slétta viku.
„Það er alltaf meiri og meiri spenna með hverjum deginum. Þegar töskurnar eru allar komnar fram og maður er búinn að pakka þá er loksins að koma að þessu,“ sagði Elliði Snær í samtali við mbl.is fyrir æfingu Íslands í Safamýri í gærmorgun.
Íslenska liðið hélt til Austurríkis í morgun og leikur þar tvo vináttuleiki við heimamenn í undirbúningi sínum fyrir Evrópumótið.
„Það er ótrúlega gott að fá leiki. Við erum bara búnir með tvo leiki með þjálfaranum og nýja þjálfarateyminu. Það er ótrúlega mikilvægt fyrir þá að fá tvo aðra leiki til þess að kynnast liðinu betur í leik.
Það er allt annað heldur en á æfingum þó að það sé ótrúlega gott samband á æfingu. Það er bara ekki það sama og að vera í leik þannig að það er mjög mikilvægt fyrir alla,“ útskýrði hann.
Elliði Snær er ánægður með útlitið á leikmannahópnum einni viku fyrir mót. „Staðan er ótrúlega góð. Það eru allir hægt og rólega að ná að vera með.
Við erum að æfa rosa vel, við erum allir í mjög góðu líkamlegu formi og það er rosalega góð keyrsla á æfingum. Það er mjög góð staða á hópnum.“
Markmið Íslands er að tryggja sér sæti í umspili um laust sæti á Ólympíuleikunum og er Eyjamaðurinn bjartsýnn á að það takist.
„Já, mjög. Auðvitað þarf mikið að ganga upp en það segir sjálft að við ætlum okkur að vinna alla leiki sem við förum í og við höfum gæði til þess. En við þurfum líka að gera það.
Það má ekki slökkva á sér í eitt kortér eins og á síðasta móti. Við viljum meina að við séum reynslunni ríkari og það er eins gott að sýnum það,“ sagði Elliði Snær að lokum í samtali við mbl.is.