Fellur met Guðjóns Vals í dag?

Guðjón Valur Sigurðsson skoraði 288 mörk fyrir Ísland á EM …
Guðjón Valur Sigurðsson skoraði 288 mörk fyrir Ísland á EM og er enn markahæstur í sögu keppninnar. mbl.is/Golli

Guðjón Valur Sigurðsson er markahæsti leikmaðurinn í sögu lokakeppni Evrópumóta karla í handknattleik en flest bendir til þess að met hans verði slegið í keppninni sem hefst í Þýskalandi í dag.

Metið gæti hugsanlega verið slegið strax í dag, í upphafsleik keppninnar, ef hinn þrautreyndi Nikola Karabatic, sem verður fertugur á þessu ári, skorar tíu mörk fyrir Frakka gegn Norður-Makedóníu í leik liðanna sem hefst í Düsseldorf klukkan 17.

Guðjón Valur hefur skorað 288 mörk fyrir Ísland á EM en Karabatic 279 mörk fyrir Frakkland. Þó Karabatic sé ekki jafn mikill lykilmaður í sóknarleik Frakka og á árum áður má telja líklegt að hann nái að skora tíu mörk í keppninni og skáka Guðjóni Val.

Síðan gæti Daninn öflugi Mikkel Hansen einnig náð Guðjóni á þessu móti. Hann er þriðji markahæstur í sögunni með 261 mark og þarf því 28 mörk til að komast fram úr honum.

Langt er í næstu menn á markalistanum. Stefan Lövgren skoraði 203 mörk fyrir Svía á árum áður og Króatinn Ivan Cupic skoraði 188 mörk en hann er ekki lengur í króatíska landsliðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert