Íslendingar risu upp frá dauðum gegn Serbíu

Landsliðsfyrirliðinn Aron Pálmarsson sækir að Serbum.
Landsliðsfyrirliðinn Aron Pálmarsson sækir að Serbum. mbl.is/Binni

Bjarki Már Elísson var markahæstur hjá íslenska karlalandsliðinu í handknattleik þegar liðið mætti Serbíu í upphafsleik sínum í C-riðli Evrópumótsins í Ólympíuhöllinni í München í Þýskalandi í dag.

Leiknum lauk með ótrúlegu jafntefli, 27:27, en Bjarki Már skoraði sjö mörk í leiknum og Ísland náði stiginu með því að skora þrjú síðustu mörk leiksins á síðustu 90 sekúndunum.

Ísland var undir, 27:24, þegar hálf önnur mínúta var eftir en þá skoraði Aron Pálmarsson tvö glæsileg mörk áður en Sigvaldi Björn Guðjónsson jafnaði metin nokkrum sekúndum fyrir leikslok.

Leikurinn fór mjög rólega af stað og Viktor Gísli Hallgrímsson varði tvívegis mjög vel frá serbneska liðinu á upphafsmínútunum.

Ómar Ingi Magnússon fékk frábært tækifæri til þess að koma Íslandi yfir eftir fimm mínútna leik en Dejan Milojevic varði vítakast hans mjög vel.

Það var svo Uors Borzas sem braut ísinn fyrir Serba og kom þeim yfir, 1:0, eftir sex mínútna leik.

Elliði Snær Viðarsson var fljótur að svara og eftir það skiptust liðin á að skora.

Elliði Snær fékk svo að líta rauða spjaldið á 12. mínútu eftir að hann fór harkalega í andlitið á Uros Borzas og tók Eyjamaðurinn því ekki frekari þátt í leiknum.

Bjarki Már Elísson kom Íslandi yfir í fyrsta sinn í leiknum, 3:2, með marki úr vítaskoti á 13. mínútu en Serbar jöfnuðu jafn harðan og var staðan 3:3 þegar fimmtán mínútur voru liðnar af fyrri hálfleik.

Ómar Ingi Magnússon á vítalínunni.
Ómar Ingi Magnússon á vítalínunni. mbl.is/Binni

Frábær kafli Íslands

Þá kom frábær kafli hjá íslenska liðinu sem skoraði þrjú mörk í röð og Bjarki Már Elísson kom Íslandi þremur mörkum yfir, 7:4.

Serbar tóku leikhlé og þeir voru búnir að jafna metin í 7:7 eftir tveggja mínútna leik en íslenska liðið tapaði boltanum klaufalega nokkrum sinnum í röð og Serbarnir refsuðu grimmilega.

Þá kom aftur frábær kafli hjá íslenska liðinu þar sem Sigvaldi Björn Guðjónsson fór mikinn en Arnar Freyr Arnarsson skoraði frábært mark af línunni, eftir sendingu frá Gísla Þorgeiri Kristjánssyni á 26. mínútu og kom Íslandi aftur þremur mörkum yfir, 10:7.

Serbum tókst að laga stöðuna fyrir hálfleik og Dragan Pechmalbec minnkaði muninn í eitt mark, 11:10, þegar hálf mínúta var eftir af hálfleiknum. Íslenska liðið fékk tækifæri til þess að komast tveimur mörkum á nýjan leik en Milosavljev varði í markinu og staðan því 11:10, Íslandi í vil, í hálfleik.

Allt klárt fyrir landsleik Íslands og Serbíu.
Allt klárt fyrir landsleik Íslands og Serbíu. mbl.is/Binni

Eins marks munur í hálfleik

Bogdan Radivojevic jafnaði metin fyrir Serba með fyrsta skoti síðari hálfleiks og staðan orðin jöfn, 12:12.

Bjarki Már Elísson fékk kjörið tækifæri til þess að koma íslenska liðinu yfir á nýjan leik þegar Gísli Þorgeir Kristjánsson fiskaði vítakast en Milosavljev varði frá honum, Serbar brunuðu upp í sókn, og komust yfir í fyrsta sinn í langan tíma í leiknum.

Janus Daði Smárason jafnaði metin fyrir Ísland í 12:12 og eftir það skiptust liðin á að skora, líkt og í fyrri hálfleik.

Serbar skoruðu þá tvö mörk í röð eftir mikinn vandræðagang í sóknarleik íslenska liðsins en Bjarki Már svaraði fyrir íslenska liðið með laglegu marki úr hraðaupphlaupi og staðan 15:14, en þá skoruðu Serbar tvö auðveld mörk í röð og náðu þriggja marka forskoti þegar tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik, 17:14, í fyrsta sinn í leiknum.

Bjarki Már og Viggó Kristjánsson minnkuðu muninn fyrir Ísland í eitt mark, 17:16, og Ómar Ingi Magnússon fékk kjörið tækifæri til þess að jafna metin en vítakast hans fór í slánna og yfir og Serbar því einu marki yfir þegar fimmtán mínútur voru til leiksloka.

Ótrúlegar lokamínútur

Síðustu fimmtán mínútur leiksins voru æsispennandi. Liðin skiptust á að skora og þegar tíu mínútur voru til leiksloka kom Pedrag Vejin Serbum þremur mörkum yfir, 22:19. Íslenska liðið brunaði upp í sókn og Viggó Kristjánsson braut sér leið í gegnum vörn Serba og minnkaði muninn í tvö mörk, 22:20, þegar tæplega tíu mínútur voru til leiksloka.

Viggó minnkaði svo muninn í eitt mark, 23:22, þegar sjö mínútur voru til leiksloka. Áfram skiptust liðin á að skora og var staðan 25:24, Serbum í vil, þegar fimm mínútur voru eftir af leiknum.

Petar Djordjic kom Serbum tveimur mörkum yfir þegar fjórar mínútur voru eftir af leiknum og Djordic kom þeim þremur mörkum yfir, 27:24, þegar þrjár mínútur voru eftir af leiknum.

Serbar leiddu með tveimur mörkum þegar mínúta var til leiksloka en Aron Pálmarsson minnkaði muninn í eitt mark með frábæru skoti utan teigs. Serbar fóru í sókn, voru lengi að athafna sig, og Ísland stal boltanum. Sigvaldi brunaði upp í sókn og jafnaði metin með lokaskoti leiksins.

Serbar náðu reyndar skoti sem Viktor Gísli varði en leiktíminn var runninn út áður en að því kom.

Næsti leikur Íslands er gegn Svartfjallalandi á sunnudaginn kemur í München en Ungverjaland og Svartfjallaland mætast síðar í kvöld í hinum leik riðilsins.

Ísland 27:27 Serbía opna loka
60. mín. Viktor Gísli Hallgrímsson (Ísland) varði skot Í innkast. Þessi bolti hefði þurft að fara til Íslendings.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert