Ómar Ingi Magnússon var besti leikmaður íslenska karlalandsliðsins í handknattleik þegar liðið hafði betur gegn Svartfjallalandi, 31:30, í C-riðli Evrópumótsins í Ólympíuhöllinni í München í dag.
Ómar Ingi skoraði sjö mörk í leiknum og var markahæstur í íslenska liðinu og þá átti Björgvin Páll Gústavsson mjög góðan leik í markinu og varði átta skot í síðari hálfleiknum.
Ísland fer með sigrinum í efsta sæti riðilsins í 3 stig en Ungverjaland, sem er með 2 stig, getur endurheimt toppsætið á nýjan leik síðar í kvöld þegar liðið mætir Serbíu í síðari leik riðilsins. Svartfjallaland er án stiga í neðsta sætinu og Serbía er í því þriðja með 1 stig.
Ísland og Ungverjaland mætast í síðasta leik riðilsins á þriðjudagskvöldið en á undan mætast Serbía og Svartfjallaland.
Viktor Gísli Hallgrímsson varði fyrsta skot leiksins, með andlitinu, en Branko Vujovic skoraði fyrsta mark leiksins eftir fjögurra mínútna leik.
Óðinn Þór Ríkharðsson jafnaði metin strax í næstu sókn og skiptust liðin á að skora eftir það.
Ómar Ingi Magnússon var frábær á fyrstu mínútum leiksins og lagði upp hvert dauðafærið á fætur öðru en því miður tókst íslenska liðinu ekki að nýta sér það sem skildi.
Eftir tíu mínútna leik kom Elvar Örn Jónsson íslenska liðinu yfir, 5:4, og Elliði Snær Viðarsson og Bjarki Már Elísson bættu við sitt hvoru markinu til viðbótar og Ísland allt í einu komið þremur mörkum yfir, 7:4.
Íslenska liðið náði svo fimm marka forskoti, 10:5, en Svartfjallalandi tókst að minnka muninn í einungis tvö mörk í 10:8 á tveggja mínútna kafla.
Íslenska liðið var hins vegar áfram með yfirhöndina í leiknum og Ómar Ingi Magnússon kom Íslandi aftur þremur mörkum yfir, 13:10, með marki af vítalínunni þegar tuttugu mínútur voru liðnar af leiknum.
Íslandi gekk hins vegar illa að hrista Svartfellinga af sér og Luka Rodovic minnkaði muninn í eitt mark, 15:14, þegar þrjár mínútur voru eftir af fyrri hálfleik.
Sigvaldi Björn Guðjónsson og Viggó Kristjánsson skoruðu svo tvö mörk í röð og komu Íslandi í 17:14 en Vasilje Kaludjerovic lagaði stöðuna fyrir Svartfjallaland á lokamínútu leiksins og Ísland leiddi með tveimur mörkum í hálfleik, 17:15.
Ómar Ingi Magnússon átti fyrsta skot síðari hálfleiks en það fór í stöngina og út. Svartfjallaland brunaði upp í sókn og Vasilje Kaldujerovic minnkaði muninn í aðeins eitt mark, 17:16.
Þá kom góður leikkafli hjá íslenska liðinu þar sem Björgvin Páll Gústavsson varði frábæra úr dauðafæri frá Svartfjallalandi í stöðunni 18:16. Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði svo frábært undirhandamark og kom Íslandi þremur mörkum yfir á nýjan leik, 19:16.
Bæði Bjarki Már Elísson og Elliði Viðarsson fengu tækifæri til þess að koma Íslandi fjórum mörkum yfir en Nebojsa Simic varði frá þeim úr sannkölluðum dauðafærum.
Björgvin Páll Gústavsson hélt hins vegar áfram að verja í marki íslenska liðsins og sá til þess að munurinn var áfram þrjú mörk þegar tæplega tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik, 21:18.
Þá kom frábær leikkafli hjá Svartfjallalandi með Simic fremstan í flokki en hann varði hvert skotið á fætur öðru og Vasilje Kaludjerovic jafnaði metin í 21:21. Ómar Ingi Magnússon kom Íslandi aftur yfir, 22:21, en Svartfjallaland jafnaði metin strax í næstu sókn í 22:22.
Aron Pálmarsson skoraði svo fallegt mark og kom Íslandi yfir á nýjan leik, 23:22, og Ómar Ingi Magnússon skoraði sitt fimmta mark í leiknum og kom Íslandi tveimur mörkum yfir, 24:22, þegar fimmtán mínútur voru til leiksloka.
Ómar Ingi hélt áfram að bæta við mörkum og hann kom Íslandi þremur mörkum yfir á nýjan leik, 25:22 með marki úr vítakasti.
Liðin skiptust á að skora eftir þetta og íslenska liðinu gekk illa að hrista Svartfellinga alveg af sér líkt og í fyrri hálfleik.
Nemanja Grbovic minnkaði muninn fyrir Svartfjallaland í eitt mark, 27:26, þegar tíu mínútur voru til leiksloka.
Svarfjallaland fékk tækifæri til þess að jafna metin í 27:27 en Björgvin Páll var vandanum vaxinn í markinu og varði vel.
Ómar Ingi skoraði svo ótrúlegt mark þegar rúmlega sex mínútur voru til leiksloka en hann átti þá skot úr vonlausri stöðu sem fór í gegnum klofið á Simic í markinu og kom Ísland tveimur mörkum yfir, 28:26.
Svartfjallaland skoraði svo tvö mörk í röð og jafnaði metin í 28:28 eftir að íslenska liðið hafði kastað boltanum klaufalega frá sér.
Morko Radovic kom Svartfjallalandi svo yfir, 29:28, þegar þrjár mínútur voru til leiksloka en Gísli Þorgeir Kristjánsson svaraði strax í næstu sókn og jafnaði metin í 29:29.
Lokamínúturnar voru æsispennandi þar sem Vasilje Kaludjerovic átti skot í þverslá og Ísland brunaði upp í sókn og Bjarki Már Elísson kom Íslandi aftur yfir, 30:29, en aftur tókst Svartfjallalandi að jafna metin í 30:30 og allt jafnt þegar ein og hálf mínúta var til leiksloka.
Bjarki Már átti svo skot í þverslá og Svartfjallaland fékk tækifæri til að komast yfir en þá var boltinn dæmdur af þeim eftir vitlausa skiptingu.
Ísland fór í sókn og Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði og kom Íslandi yfir, 31:30.
Svartfjallaland fékk tækifæri til að jafna metin í síðustu sókn leiksins en Björgvin Páll varði lokaskotið og Ísland fagnaði ótrúlegum sigri.