„Þessi leikur leggst mjög vel í mig og við erum búnir að fara mjög vel yfir þá,“ sagði Aron Pálmarsson, fyrirliði íslenska karlalandsliðsins í handknattleik, í samtali við mbl.is á æfingu íslenska liðsins í München í Þýskalandi í gær.
Íslenska liðið mætir Ungverjalandi í lokaleik sínum í C-riðli Evrópumótsins í Ólympíuhöllinni í München annað kvöld en Ísland er í öðru sæti riðilsins með þrjú stig á meðan Ungverjaland er í efsta sætinu, og komið áfram í milliriðla, með fjögur stig.
Leikurinn er því hreinn úrslitaleikur um efsta sæti riðilsins en jafntefli dugar íslenska liðinu til þess að tryggja sér sæti í milliriðli.
„Við erum á þeim stað sem við ætluðum okkur að vera á. Við erum á leiðinni inn í úrslitaleik um efsta sæti riðilsins og þetta er nákvæmlega staðan sem við ætluðum okkur að vera í, farandi inn í mótið,“ sagði Aron.
Bence Bánhidi er markahæsti leikmaður Ungverja á mótinu með 15 mörk en línumaðurinn öflugi er 208 sentímetrar á hæð og 120 kílógrömm.
„Hann er helvíti góður og stór og mikill. Það er enginn einn sem er að fara stoppa hann og við þurfum að vinna þetta vel saman ef við ætlum að reyna hægja eitthvað á honum. Við getum ekki leyft okkur að slaka á í eina sekúndu og við erum með ákveðnar leiðir til þess að hægja á honum.“
Íslenska liðið á nóg inni þrátt fyrir að vera með þrjú stig úr fyrstu tveimur leikjum sínum á mótinu.
„Við vorum betri gegn Svartfjallalandi en við vorum í fyrsta leiknum gegn Serbíu. Við ætlum okkur að vera enn þá betri gegn Ungverjalandi, nýta dauðafærin, laga þá hluti sem þarf að laga og svo klára þennan riðil,“ bætti Aron Pálmarsson við í samtali við mbl.is.