Hver mistökin á fætur öðrum gegn Ungverjum

Íslenska karlalandsliðið í handknattleik sá aldrei til sólar þegar liðið mætti Ungverjalandi í lokaleik sínum í C-riðli Evrópumótsins í Ólympíuhöllinni í München í kvöld. 

Leiknum lauk með stórsigri Ungverja, 33:25, en liðið hafði tryggt sér sæti í milliriðlum áður en kom að leik kvöldsins eftir sigur Svartfjalllands gegn Serbíu í fyrri leik riðilsins fyrr um daginn.

Ísland endar í öðru sæti riðilsins með 3 stig og fer án stiga inn í milliriðilinn þar sem Frakkland, Þýskaland, Króatía og Austurríki verða mótherjar liðsins í Lanxness-höllinni í Köln.

Máté Lékai skoraði fyrsta mark leiksins eftir þriggja mínútna leik en Bjarki Már Elísson var fljótur að jafna metin með laglegu marki úr hraðaupphlaupi.

Liðin skiptust á að skora eftir þetta en Ungverjar voru þó með frumkvæðið á fyrstu mínútum leiksins.

Sigvaldi Björn Guðjónsson kom Íslandi yfir í fyrsta sinn í leiknum eftir sex mínútuna leik, 4:3, eftir hraða sókn íslenska liðsins en Bence Imre jafnaði metin í 4:4 strax í næstu sókn.

Bjarki Már Elísson kom Íslandi yfir, 5:4, með marki úr vinstra horninu en Gábor Ancsin jafnaði metin jafn harðan fyrir Ungverja í 5:5, og allt í járnum eftir fyrstu tíu mínútur leiksins.

Besti leikmaður Ungverja fékk rautt

Eftir sex mínútna leik dró til tíðinda þegar Bence Bánhidi, línumaður Ungverja, fékk að líta rauða spjaldið fyrir að fara aftan í Gísla Þorgeir Kristjánsson sem var að brjóta sér leið í gegnum vörn Ungverja. Gísli lá óvígur eftir en gat engu að síður haldið leik áfram en atvikið átti sér stað í stöðunni 6:5, Ungverjum í vil.

Þá kom hins vegar arfaslakur kafli hjá íslenska liðinu og eftir að Elvar Örn Jónsson jafnaði metin í 7:7 eftir fimmtán mínútuna leik skoruðu Ungverjar þeir Zoltán Szita tvívegis fyrir Ungverja og Egon Hanusz bætti öðru marki við fyrir Ungverjaland og staðan allt í einu orðin 10:7, Ungverjum í vil.

Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari íslenska liðsins, ákvá þá að taka leikhlé og Ómar Ingi Magnússon var fljótur að minnka muninn í eitt mark, 10:9, fyrst af vítalínunni og svo eftir laglega sókn íslenska liðsins.

Gekk illa að minnka muninn

Bjarki Már Elísson fékk gullið tækifæri til þess að jafna metin í 10:10 þegar tuttugu mínútur voru liðnar af leiknum en Kristóf Palasics varði frá honum úr sannkölluðu dauðafæri og Ísland áfram marki undir, 10:9.

Gísli Þorgeir Kristjánsson fékk einnig tækifæri til þess að jafna metin í 10:10 en skot hans, eftir að hann braut sér laglega leið í gegnum vörn Ungverja, fór í stöngina og svo aftur í stöngina.

Bendegúz Bóka kom Ungverjum svo aftur tveimur mörkum yfir, 11:9, þegar rúmlega sjö mínútur voru eftir af fyrri hálfleik en Ómar Ingi Magnússon minnkaði muninn strax í næstu sókn með frábæru skoti utan teigs.

Ungverjar skoruðu hins vegar tvívegis í röð og komust aftur þremur mörkum yfir, 13:10, þegar fimm mínútur voru eftir af fyrri hálfleik.

Náðu að laga stöðuna fyrir hálfleik

Ómar Ingi Magnússon fékk tækifæri til að minnka muninn í tvö mörk en vítakast hann fór í slánna og yfir og strax í næstu sókn skoraði Egon Hanusz og kom Ungverjum fjórum mörkum yfir í fyrsta sinn í leiknum, 14:10.

Viggó Kristjánsson minnkaði muninn í þrjú mörk með marki af vítalínunni og Aron Pálmarsson braut sér svo leið í gegnum vörn Ungverja og minnkaði muninn í tvö mörk, 14:12, þegar ein og hálf mínúta var eftir af fyrri hálfleik.

Ungverjar tóku leikhlé, sem skilaði ekki árangri, því liðið kastaði frá sér boltanum strax í næstu sókn, Viggó Kristjánsson brunaði upp í sókn og minnkaði muninn í eitt mark, 14:13.

Gábor Ancsin skoraði hins vegar síðasta mark hálfleiksins og kom Ungverjum tveimur mörkum yfir, 15:13, úr vonlausri stöðunni í horninu, og þannig var staðan í hálfleik.

Fimm marka munur Ungverja

Gergö Fazekas skoraði fyrsta mark síðari hálfleiks og kom Ungverjum aftur þremur mörkum yfir 16:13.  Viggó Kristjánsson átti skot fyrir utan sem Palasics í marki Ungverja varði nokkuð auðveldlega og Fazekas skoraði strax í næstu sókn og kom Ungverjalandi fjórum mörkum yfir á nýjan leik, 17:13.

Aron Pálmarsson minnkaði muninn fyrir Ísland í þrjú mörk, 17:14, með fallegu skoti utan teigs og liðin skiptust svo á að skora eftir þetta en alltaf voru Ungverjar með frumkvæðið í leiknum.

Dominik Máthé kom Ungverjalandi svo fimm mörkum yfir, 20:15, þegar sjö mínútur voru liðnar af síðari hálfleik.

Ungverjar voru áfram skrefi á undan og Miklós Rosta kom þeim sex mörkum yfir af línunni, 24:18, þegar tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik.

Ungverjar stungu af

Þá tók Snorri Steinn Guðjónsson leikhlé en það bar lítinn árangur því íslenska liðið kastaði boltanum frá sér strax í næstu sókn.

Patrik Ligetvári kom Ungverjum svo sjö mörkum yfir, 25:18, þegar rúmlega fimmtán mínútur voru til leiksloka og útlitið orðið frekar dökkt hjá íslenska liðinu.

Ungverjar héldu áfram að auka forskot sitt og munurinn á liðunum var allt í einu orðinn níu mörk þegar tíu mínútur voru til leiksloka.

Íslenska liðinu tókst að aldrei að ógna forskoti Ungverjalands á síðustu tíu mínútum leiksins og Ungverjar fögnuðu öruggum sigri í leikslok og fara inn í milliriðlakeppnina með tvö stig.

Ómar Ingi Magnússon og Viggó Kristjánsson voru markahæstirr hjá íslenska liðinu með fimm mörk hvor. Þá varði Viktor Gísli Hallgrímsson átta skot í marki íslenska liðsins.

Ísland 25:33 Ungverjaland opna loka
60. mín. Miklós Rosta (Ungverjaland) skoraði mark Af línunni.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert