„Það er einhver tómleiki,“ sagði svekktur Elliði Snær Viðarsson, landsliðsmaður í handbolta, eftir tapið gegn Ungverjalandi, 33:25, á EM í Þýskalandi í kvöld.
„Við erum að gefa allt í þetta en við finnum ekki lausnir eða rétt augnablik til að stíga upp. Það er erfitt að útskýra þessa tilfinningu sem er núna,“ bætti hann við.
Bence Bánhidi, besti maður Ungverja, fékk rautt spjald í fyrri hálfleik. Það hægði lítið á Ungverjunum. „Þeirra besti maður fór og þá þéttu þeir raðirnar sínar og við fundum ekki réttu lausnirnar.“
Ísland er komið í milliriðil en fer þangað stigalaust eftir tapið í kvöld. „Við ætluðum alltaf að taka tvö stig með okkur en nú verðum við að finna þessi tvö stig einhvers staðar annars staðar. Við höfum tvo daga á milli leikja.“
Næsti leikur Íslands er gegn gestgjöfunum í Þýskalandi í Köln á fimmtudaginn kemur. „Svekkelsið verður búið á morgun. Við verðum að fara vel yfir þetta og finna þessar lausnir. Nú er nýr leikur á fimmtudaginn og við förum 100 prósent í hann,“ sagði Elliði.