Landsliðsfyrirliðinn í sjokki

Aron Pálmarsson sækir að Ungverjum í kvöld.
Aron Pálmarsson sækir að Ungverjum í kvöld. Ljósmynd/Kristján Orri

„Tilfinningin er ömurleg og ég er í raun orðlaus,“ sagði Aron Pálmarsson, fyrirliði íslenska karlalandsliðsins í handknattleik, í samtali við mbl.is eftir stórt tap gegn Ungverjalandi í lokaleik liðsins í C-riðli Evrópumótsins í Ólympíuhöllinni í München í kvöld.

Íslenska liðið sá aldrei til sólar gegn Ungverjalandi en er þrátt fyrir tapið, 33:25, komið áfram í milliriðla eftir sigur Svartfjallalands gegn Serbíu í fyrri leik riðilsins í München í dag.

Leikplanið var gott

„Þetta er ákveðið sjokk, að vera tekinn svona illa. Við vorum með gott leikplan sem gekk vel upp í fyrra hálfleik að mínu mati, fyrir utan kannski það að við vorum ekki að klukka boltann í markinu því við vildum sjá þá fara í þau skot sem þeir voru að fara í. Við stoppuðum línumennina þeirra vel í fyrri hálfleik en það afsakar ekki þessa frammistöðu í síðari hálfleik. 

Það var ekkert sem kom okkur á óvart í þeirra leik og ég skil ekki hvernig við, sem lið og með leikmenn í hæsta gæðaflokki, getum gert svona mikið af byrjendamistökum. Uppleggið fyrir leikinn var gott og stemningin í hópnum er mjög góð. Menn eru í góðu standi líkamlega en ég á bara erfitt með að finna útskýringu á því af hverju við erum ekki betri en þetta,“ sagði Aron.

Sóknarleikurinn klikkaði

En hvað klikkaði hjá íslenska liðinu í leiknum?

„Sóknarleikurinn okkar. Hann er ekki búinn að vera neitt spes á mótinu heilt yfir. Hann var fínn gegn Svartfjallandi en þá vorum við samt að klikka á of mörgum dauðafærum. Svo skjótum markmanninn hjá þeim í gang sem endar með því að hann er valinn maður leiksins.

Á sama tíma, þó svo hann sé að verja, þá erum við að tapa boltanum klaufalega á ákveðnum augnablikum í leiknum. Við erum með tæknilega frábært lið en við erum alls ekki að sýna það þannig að það er ekki hægt að segja að við séum með tæknilega frábært lið eins og staðan er í dag.“

Það fallega við handboltann

Það er stutt í næsta leik gegn Þýskalandi í Lanxess-höllinni í Köln gegn heimamönnum í Þýskalandi.

„Það er það fallega við handboltann. Þú færð nokkra tíma til þess að svekkja þig á þessu og svo er bara að mæta með brosið að vopni í morgunmatinn í fyrramálið,“ bætti landsliðsfyrirliðinn við í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert