„Mér finnst ekki vanta upp á það að menn séu aðeins hrokafullir og með sjálfstraustið í botni,“ sagði Aron Pálmarsson, fyrirliði íslenska karlalandsliðsins í handknattleik, í samtali við mbl.is eftir stórt tap gegn Ungverjalandi í lokaleik liðsins í C-riðli Evrópumótsins í Ólympíuhöllinni í München í gær.
Íslenska liðið sá aldrei til sólar gegn Ungverjalandi en er þrátt fyrir tapið, 33:25, komið áfram í milliriðla eftir sigur Svartfjallalands gegn Serbíu í fyrri leik riðilsins í München í dag.
Frammistaða íslenska liðsins gegn Ungverjalandi var mikil vonbrigði en liðið mætir Þýskalandi, Frakklandi, Króatíu og loks Austurríki í milliriðlinum í Köln.
„Blandan þar er góð, andlega séð, og leikplanið gott líka. Við erum búnir að spila lengi saman og við erum farnir að þekkjast vel þannig að við höfum í raun engar afsakanir.
Við getum ekki falið okkur á bak við neitt, við leikmenn, núna þarf hver og einn innan liðsins að líta aðeins í eigin barm. Við erum með allt til alls til þess ná árangri en hver og einn verður að líta djúpt inn á við og finna heimsklassaleikmanninn í sér,“ bætti landsliðsfyrirliðinn við í samtali við mbl.is.