„Við vorum drullusvekktir eftir leikinn gegn Ungverjalandi en við mætum klárir í þennan leik gegn Þýskalandi,“ sagði Haukur Þrastarson, leikmaður íslenska karlalandsliðsins í handknattleik, í samtali við mbl.is á liðshóteli íslenska liðsins í Köln í gær.
Íslenska liðið undirbýr sig nú fyrir fyrsta leik gegn Þýskalandi í milliriðli 1 í Lanxess-höllinni í Köln en bæði lið koma inn i milliriðlakeppnina án stiga.
„Ég hefði getað gert mun betur finnst mér í þessum Ungverjaleik og ég er aðeins ósáttur með mína frammistöðu þar. Ég hefði viljað gera miklu betur og mér finnst í raun ekki skipta máli hvernig leikurinn var að spilast, ég vil standa mig þegar ég kem inn á. Sem betur fer er stutt í næsta leik og við erum mjög spenntir að fá leik svona stuttu eftir Ungverjaleikinn þar sem við getum kvittað fyrir mistökin,“ sagði Haukur.
Haukur hefur lítið fengið að spila á mótinu til þessa.
„Ég er mjög hungraður í að sanna mig, sérstaklega með landsliðinu, þar sem ég hef misst mikið úr á síðustu árum vegna meiðsla. Annars leggst þessi milliriðill mjög vel í mig og það er fullt af tækifærum í þessu.
Við höfum ekki náð að sýna okkar bestu hliðar og við erum allir meðvitaðir um það. Við getum gert miklu betur og við erum staðráðnir í að sýna fólki það í milliriðlakeppninni,“ sagði Haukur í samtali við mbl.is.