Náði Evrópumetinu af Guðjóni Val

Nikola Karabatic (13), fagnar fimmta markinu og markametinu í Köln …
Nikola Karabatic (13), fagnar fimmta markinu og markametinu í Köln og bróðir hans Luka Karabatic (22) samgleðst greinilega. AFP/Ina Fassbender

Franski handknattleiksmaðurinn Nikola Karabatic hirti rétt í þessu markametið í lokakeppni Evrópumóta karla af Guðjóni Val Sigurðssyni.

Guðjón hefur átt metið, 288 mörk fyrir Ísland á EM, frá því hann lagði skóna á hilluna fyrir nokkrum árum.

Karabatic, sem verður fertugur á þessu ári, var níu mörkum á eftir honum með 279 mörk þegar Evrópumótið hófst í Þýskalandi á dögunum.

Hann skoraði fimm mörk í fyrstu þremur leikjum Frakka en í leik þeirra við Króata í milliriðlinum sem nú stendur yfir í Köln skoraði Karabatic rétt í þessu fimmta mark sitt í leiknum, og það tíunda á mótinu, og er þar með orðinn markakóngur keppninnar frá upphafi með 289 mörk.

Markið skoraði Karabatic í tómt mark Króata af eigin vallarhelmingi á 45. mínútu leiksins og kom Frökkum í 26:22.

Mikkel Hansen hefur skorað 15 mörk fyrir Dani á mótinu og getur líka gert atlögu að metinu á þessu móti en hann er þriðji markahæstur á EM frá upphafi með 276 mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert