Mamma ennþá ánægðari en ég

Nikola Karabatic hafði ástæðu til að fagna í leikslok gegn …
Nikola Karabatic hafði ástæðu til að fagna í leikslok gegn Króatíu í gær, bæði sigrinum og markametinu. AFP/Ina Fassbender

Franski handknattleiksmaðurinn Nikola Karabatic kveðst vera ánægður með að hafa slegið markamet Guðjóns Vals Sigurðssonar í lokakeppni EM karla en segir að móðir sín sé ennþá ánægðari.

Þegar Karabatic skoraði sitt fimmta og síðasta mark í sigri Frakka á Króatíu í gær, 34:32, í tómt króatíska markið af eigin vallarhelmingi, var hann kominn með 289 mörk fyrir Frakkland á EM frá upphafi en Guðjón Valur skoraði 288 mörk fyrir Ísland á sínum tíma.

Verður að skora átta í viðbót

Karabatic, sem verður fertugur 11. apríl og freistar þess að  verða Evrópumeistari í fjórða sinn á þessu móti, sagði við fréttamenn eftir leikinn að hann hefði ekki sett mikla pressu á sjálfan sig að slá metið en það hefði annar gert.

„Mamma hringdi í mig fyrir nokkrum dögum og endurtók í sífellu: „Þú verður að skora átta í viðbót. Ég reyndi að útskýra fyrir henni að ég gerði margt annað í leiknum en að skora mörk, ég ætti til dæmis margar stoðsendingar. En hún hélt áfram að hamra á því að ég yrði að skora átta mörk. Ég er viss um að hún er enn hamingjusamari en ég í kvöld," sagði Karabatic, en fyrir leikina gegn Þýskalandi og Króatíu vantaði hann átta mörk til að slá met Guðjóns og náði því með því að skora fjögur í hvorum leik.

Öll fjölskyldan í stúkunni

„Hún var í stúkunni, eins og sambýliskona mín og börnin mín. Það er frábært að fjölskyldan skyldi vera öll til staðar til að verða vitni að þessu augnabliki," sagði Karabatic.

Spurður hvort hann hefði verið með áform um að fagna tímamótamarkinu sérstaklega svaraði Frakkinn: „Í handbolta er enginn tími  til að fagna. Ég hugsaði ekkert um þetta, það eina sem ég hafði í huga var að drífa mig aftur í vörnina svo Króatar myndu ekki skora ódýrt mark í kjölfarið."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert