Draumurinn lifir eftir sögulegan sigur Íslands

Björgvin Páll Gústavsson lokaði markinu á ögurstundu þegar íslenska karlalandsliðið í handknattleik vann frækinn sigur gegn Króatíu í milliriðli 1 á Evrópumótinu í Lanxess-höllinni í Köln í Þýskalandi í dag.

Leiknum lauk fimm marka sigri Íslands, 35:30, en Björgvin Páll varði 14 skot í leiknum, var með 35% markvörslu, og var frábær á síðustu tíu mínútum leiksins þegar leikurinn var í járnum.

Ísland fer með sigrinum upp í fimmta sæti riðilsins og upp fyrir Króata í 3 stig en þetta var fyrsti sigur íslenska liðsins gegn því króatíska á stórmóti.

Óðinn Þór Ríkharðsson svífur inn í teiginn hjá Króötum og …
Óðinn Þór Ríkharðsson svífur inn í teiginn hjá Króötum og skorar eitt af sex mörkum sínum. Annað mark Óðins var hans 100. fyrir íslenska landsliðið. AFP/Ina Fassbender

Draumurinn um sæti í undankeppni Ólympíuleikanna lifir því góðu lífi en Ísland þarf að vinna Austurríki á miðvikudaginn og treysta á að Frakklandi tapi ekki fyrir Austurríki síðar í dag.

Íslenska liðið kastaði boltanum frá sér strax í fyrstu sókn en Króatar töpuðu boltanum jafn harðan í sinni fyrstu sókn.

Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði fyrsta mark leiksins eftir þriggja mínútna leik með laglegu gegnumbroti en Luka Klarica var fljótur að jafna metin með skoti utan teigs.

Viggó Kristjánsson kom Íslandi 2:1 yfir eftir hraða sókn en Klarica jafnaði enn á ný með þrumuskoti utan teigs.

Aron Pálmarsson kom íslenska liðinu yfir á nýjan leik, 3:2, þegar hann lyfti sér upp fyrir utan teig en Zvonimir Srna jafnaði metin í 3:3.

Elvar Örn Jónsson fékk dæmdan á sig ruðning strax í næstu sókn og Veron Nacinovic kom Króötum yfir í fyrsta sinn í leiknum eftir fimm mínútna leik, 4:3.

Viggó Kristjánsson hefði getað jafnað metin strax í næstu sókn en Matej Mandic varði frá honum úr sannkölluðu dauðafæri.

Þriggja marka forskot Króata

Kristján Örn Kristjánsson og Haukur Þrastarson á fullri ferð gegn …
Kristján Örn Kristjánsson og Haukur Þrastarson á fullri ferð gegn Króötum í dag. AFP/Ina Fassbender

Marin Jelenic kom Króötum svo tveimur mörkum yfir en Gísli Þorgeir Kristjánsson var fljótur að minnka muninn í eitt mark úr þröngu færi, 5:4.

Króatar skoruðu næstu þrjú mörk leiksins og komust í 8:4, með mörkum frá þeim Domagoj Duvnjak og tveimur mörkum frá Mario Sostaric.

Elvar Örn Jónsson lagaði stöðuna fyrir íslenska liðið og minnkaði muninn í 8:5, en Veron Nacinovic kom Króötum aftur fjórum mörkum yfir, 9:5, með marki af línunni.

Bjarki Már Elísson minnkaði muninn fyrir Ísland í þrjú mörk, 9:6, með marki úr horninu en í næstu sókn Króata fékk Ýmir Örn Gíslason að líta raupa spjaldið fyrir að slá til Zvonimir Srna.

Króatar náði ekki að nýta sér liðsmuninn, skutu framhjá markinu, og Gísli Þorgeir Kristjánsson minnkaði muninn í tvö mörk, 9:7.

Domagoj Duvnjak kom Króötum aftur þremur mörkum yfir eftir tólf mínútna leik, 10:7, en Bjarki Már Elísson var fljótur að svara með marki af vítalínunni.

Björgvin Páll Gústavsson varði sitt fyrsta skot í leiknum eftir þrettán mínútna leik, frá Nacinovic sem var í dauðafæri, og Bjarki Már minnkaði muninn í eitt mark með sínu þriðja marki í leiknum, 10:9.

Fljótir að jafna metin

Gísli Þorgeir Kristjánsson sækir að Króötum.
Gísli Þorgeir Kristjánsson sækir að Króötum. mbl.is/Brynjólfur Löve

Zvonimir Srna kom Króötum tveimur mörkum yfir á nýjan leik eftir fimmtán mínútna leik en Aron Pálmarsson svaraði strax með frábæru skoti utan teigs.

Íslenska liðið fékk svo tækifæri til þess að jafna metin eftir að Króatar töpuðu boltanum en Elvar Örn Jónsson fékk dæmdan á sig ruðning.

Króatar köstuðu boltanum hins vegar boltanum frá sér í næstu sókn og Viggó Kristjánsson jafnaði metin fyrir í 11:11 þegar sautján mínútur voru liðnar af leiknum.

Aftur var boltinn dæmdur af króatíska liðinu í næstu sókn og Aron Pálmarsson kom Íslandi yfir, 12:11. Króatar voru hins vegar fljótir að svara og jöfnuðu strax í næstu sókn með marki frá Marin Jelinic.

Liðin skiptust á að tapa boltanum í næstu sóknum og Bjarki Már fékk tækifæri til þess að koma Íslandi yfir eftir hraðaupphlaup eftir tæplega tuttugu mínútna leik en Matej Mandic varði frábærlega frá honum.

Tveimur mörkum yfir í hálfleik

Gísli Þorgeir Kristjánsson skorar snemma í leiknum gegn Króötum í …
Gísli Þorgeir Kristjánsson skorar snemma í leiknum gegn Króötum í dag. AFP/Ina Fassbender

Björgvin Páll varði hins vegar frá Jelenic úr horninu og Ísland fékk tækifæri til þess að komast yfir á nýjan leik en sóknin rann út í sandinn.

Króatar áttu stangarskot strax í næstu sókn og Kristján Örn Kristjánsson kom íslenska liðinu aftur yfir, 13:12, með sínu fyrsta marki á mótinu þegar hann lyftir sér upp utan teigs og þrumaði boltanum í netið.

Luka Klarica jafnaði hins vegar metin strax í næstu sókn í 13:13 og leikurinn áfram í járnum.

Elliði Snær Viðarsson kom Íslandi marki yfir, 14:13, af línunni og Aron Pálmarsson kom Íslandi tveimur mörkum yfir í fyrsta sinn í leiknum þegar rúmlega sex mínútur voru eftir af fyrri hálfleik, 15:13.

Króatar svöruðu strax með marki frá Luka Cindric og hann var aftur á ferðinni strax í næstu sókn, eftir að íslenska liðið hafði tapaði boltanum, og jafnaði metin í 15:15.

Kristján Örn braut sér leið í gegnum vörn Króata í næstu sókn en skot hans fór í stöngina.

Jelenic kom Króötum svo aftur yfir, 16:15, með marki úr horninu og Dominik Kuzmanovic varði frá Bjarka Má Elíssyni úr horninu í næstu sókn.

Björgvin Páll Gústavsson átti tvær góðar markvörslur í röð en sóknarleikurinn var að hiksta hjá íslenska liðinu og Cindric kom Króötum tveimur mörkum yfir á nýjan leik, 17:15, þegar ein og hálf mínúta var eftir af fyrri hálfleik.

Snorri Steinn Guðjónsson tók þá leikhlé en íslenska liðið tapaði boltanum strax í næstu sókn.

Srna kom Króötum þremur mörkum yfir, 18:15, en Óðinn Þór Ríkharðsson lagaði stöðuna fyrir Ísland með marki úr vítakasti eftir að leiktíminn hafði runnið út og staðan því 18:16, Króötum í vil, í hálfleik.

Frábær byrjun á síðari hálfleik

Björgvin Páll varði fyrsta skot Króata í síðari hálfleik og Ísland fékk hraða sókn sem þar sem Óðinn Þór Ríkharðsson skoraði úr hægra horninu og minnkaði muninn í eitt mark, 18:17. Hans 100. mark í 35 landsleikjum.

Króatar skutu framhjá í næstu sókn og Aron Pálmarsson jafnaði metin i 18:18 strax í næstu sókn. 

Srna braut sér leið í gegnum vörn íslenska liðsins í næstu sókn og skoraði þeirra fyrsta mark í síðari hálfleik og kom Króötum aftur yfir, 19:18.

Kuzmanovic varði frá Arnari Frey Arnarssyni af línunni í næstu sókn Íslands og Björgvin Páll varði frá Króötum í næstu sókn. Óðinn Þór Ríkharðsson jafnaði svo metin í 19:19 með skoti fyrir aftan bak úr hraðaupphlaupi. Króatar töpuðu svo boltanum í næstu sókn og Björgvin Páll skoraði yfir allan völlinn og kom Íslandi yfir, 20:19. 

Króatar áttu fá svör við vörn íslenska liðið og töpuðu aftur boltanum í næstu sókn og Aron Pálmarsson kom Íslandi tveimur mörkum yfir með frábæru skoti, 21:19, og Króatar tóku leikhlé.

Björgvin Páll varði skot Cindric í næstu sókn en Króatar náðu frákastinu og minnkuðu muninn í eitt mark, 21:20, og Cindric jafnaði metin í 21:21, þegar tæplega tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik.

Króatar jafna metin

Óðinn Þór Ríkharðsson kom Íslandi yfir með marki úr hraðaupphlaupi en Króatar jöfnuðu metin jafn harðan. Bjarki Már Elísson kom Íslandi svo aftur yfir með marki úr hraðaupphlaupi, 23:22, en aftur jöfnuðu Króatar þegar Domagoj Duvnjak lyfti sér upp fyrir utan teig og þrumaði boltanum í netið.

Íslenska liðið fékk dæmda á sig línu strax í næstu sókn en liðið stóð vörnina vel og Króatar áttu misheppnaða línusendingu.

Óðinn Þór Ríkharðsson kom Íslandi yfir, 24:23, með marki úr hraðaupphlaupi og svo var dæmdur ruðningur á Króata.

Arnar Freyr fékk tækifæri til að koma Íslandi tveimur mörkum yfir á nýjan leik en Kuzmanovic varði frá honum úr dauðafæri á línunni.

Sóknarleikur Króata var áfram mjög stirður og Haukur Þrastarson vann boltann frábærlega í vörninni en sóknin rann út í sandinn og Jelinic jafnaði metin í 24:24 úr hraðaupphlaupi þegar fimmtán mínútur voru til leiksloka.

Björgvin Páll til bjargar

Sóknarleikurinn hélt áfram að tikka hjá íslenska liðinu og Óðinn Þór kom Íslandi yfir á nýjan leik eftir að hann leysti inn á línu og Ísland marki yfir en Króatar jöfnuðu jafn harðan í 25:25 með marki úr hægra horninu.

Elliði Snær Viðarsson kom Íslandi yfir, 26:25, þegar rúmlega 12 mínútur voru til leiksloka, með marki af línunni og Viggó Kristjánsson kom Íslandi tveimur mörkum yfir úr hraðaupphlaupi þegar rúmlega 10 mínútur voru til leiksloka.

Vörn íslenska liðsins var áfram frábær, Króatar töpuðu boltanum, og Bjarki Már Elísson kom Íslandi þremur mörkum yfir í fyrsta sinn í leiknum með marki úr hraðaupphlaupi og staðan 28:25, Íslandi í vil, þegar tíu mínútur voru til leiksloka.

Björgvin Páll varði frábærlega frá Jelenic úr hægra horninu í næstu sókn en sókn íslensla liðsins rann út í sandinn. 

Björgvin Páll varði svo aftur frábærlega frá Króötum af línunni og Bjarki Már brunaði fram og kom Íslandi fjórum mörkum yfir þegar átta mínútur voru eftir af leiknum, 29:25.

Króatar aldrei líklegir

Zvonimir Srna skaut yfir í næstu sókn og Bjarki Már Elísson kom Íslandi fimm mörkum yfir strax í næstu sókn.

Björgvin Páll varði frá Glavas úr dauðafæri í næstu sókn Króata og Haukur Þrastarson kom Íslandi sex mörkum yfir þegar rúmlega sex mínútur voru til leiksloka.

Áfram hélt Björgvin Páll að verja frá Króötunum sem áttu engin svör við íslenska markverðinum og á sama tíma stóð vörnin frábærlega.

Igor Karacic skoraði fyrsta mark Króata í háa herrans tíð þegar rúmlega fjórar mínútur voru til leiksloka en Bjarki Már svaraði jafn harðan eftir frábær spil íslenska liðsins og munurinn áfram sex mörk, 32:26.

Nacinovic minnkaði muninn í fimm mörk þegar rúmlega þrjá mínútur voru til leiksoka, 32:27, en Haukur Þrastarson skoraði strax í næstu sókn og munurinn áfram sex mörk.

Jelinic minnkaði muninn í fimm mörk, 33:28, en Viggó Kristjánsson svaraði jafn harðan og áfram var munurinn sex mörk.

Liðin skiptust á að skora á lokamínútum leiksins, Króatar voru aldrei líklegir til þess að jafna metin, og Ísland fagnaði afar dýrmætum sigri.

Ísland 35:30 Króatía opna loka
60. mín. Haukur Þrastarson (Ísland) skoraði mark Negla langt fyrir utan.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert