Íslenska karlalandsliðið í handknattleik leikur leiki sína í milliriðli 1 á Evrópumótinu í Þýskalandi í Lanxess-höllinni í Köln.
Höllin tekur tæplega 20.000 manns í sæti en úrslitahelgi Meistaradeildarinnar, sem og úrslitahelgi þýsku bikarkeppninnar, fer fram í höllinni ár hvert.
Blaðamenn mbl.is og Morgunblaðsins, sem eru staddir í Þýskalandi til þess að fylgja landsliðinu eftir, fóru í vettvangsferð um höllina í dag fyrir landsleik Íslands og Króatíu.
Þar er að finna risastórt fjölmiðlaherbergi þar sem blaðamannafundir með þjálfurum fara fram og hefur herbergið verið mest nýtt, á mótinu í ár, fyrir þýska landsliðið þar sem Alfreð Gíslason er þjálfari.
„Það er troðfullt þegar Alli Gísla er í húsinu,“ sagði undirritaður meðal annars þegar hann skoðaði Lanxess-höllina.