Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari karlalandsliðsins í handknattleik, hefur kallað Teit Örn Einarsson, leikmann Flensburg, í landsliðshópinn sem tekur nú þátt á EM 2024 í Köln í Þýskalandi.
Ástæðan fyrir því að kallað er til Teits Arnar þegar Ísland á aðeins einn leik eftir í milliriðli 1 eru veikindi í leikmannahópnum.
Teitur Örn kemur til liðs við hópinn í Köln í dag. Hann á að baki 35 A-landsleiki og hefur skorað í þeim 36 mörk.
Ómar Ingi Magnússon og Janus Daði Smárason gátu ekki tekið þátt í leiknum gegn Króatíu í gær vegna veikinda og þá fór liðsfélagi þeirra hjá Magdeburg, Gísli Þorgeir Kristjánsson, meiddur af velli.