Gísli Þorgeir: Ég óttaðist það versta

Gísli Þorgeir Kristjánsson í baráttunni gegn Króatíu í gær.
Gísli Þorgeir Kristjánsson í baráttunni gegn Króatíu í gær. mbl.is/Brynjólfur Löve

Gísli Þorgeir Kristjánsson, landsliðsmaður Íslands í handknattleik, hefur lokið leik á Evrópumótinu í Þýskalandi.

Gísli Þorgeir haltraði af velli í sigrinum gegn Króatíu í Lanxess-höllinni í Köln í gær eftir rúmlega tíu mínútna leik.

Líður vel miðað við aðstæður

„Mér líður ágætlega miðað við allt og það var frábært að strákarnir hafi unnið leikinn,“ sagði Gísli Þorgeir í samtali við mbl.is á liðshóteli íslenska liðsins í dag.

„Það hefði verið mjög svekkjandi að meiðast og að ólympíudraumurinn væri úti. Ég treysti strákunum hundrað prósent til þess að klára dæmið á móti Austurríki,“ bætti Gísli Þorgeir við.

Vont að stíga í fótinn

Óvíst er hversu lengi Gísli Þorgeir verður frá en hann er nýkominn til baka eftir að hafa farið úr axlarlið á úrslitahelgi Meistaradeildarinnar síðasta sumar.

„Það er mjög vont að stíga í löppina og að ganga. Þetta er beinmar og mögulega sprunga í ristinni en sem betur fer er þetta ekki beinbrot. Ég óttaðist það versta því það var svo ofboðslega vont að stíga í fótinn en það er mjög svekkjandi að ná ekki að klára mótið.

Í besta falli verð ég frá í nokkra daga og í versta falli eru þetta nokkrar vikur. Ég tek bara einn dag fyrir í einu,“ bætti Gísli Þorgeir við í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka