Aron: Lærdómurinn sem við drögum af þessu móti

Landsliðsfyrirliðinn Aron Pálmarsson.
Landsliðsfyrirliðinn Aron Pálmarsson. AFP/Ina Fassbender

„Dómararnir voru klárlega slakir og það er alltaf hægt að tína eitthvað til,“ sagði Aron Pálmarsson, fyrirliði íslenska karlalandsliðsins í handknattleik, í samtali við mbl.is eftir sigur liðsins gegn Austurríki, 26:24, í lokaleik sínum í milliriðli 1 á Evrópumótinu í Lanxess-höllinni í Köln í Þýskalandi í dag.

Þrátt fyrir sigurinn á Ísland ekki möguleika á því að tryggja sér sæti í undankeppni Ólympíuleikanna eftir þriggja marka sigur Frakklands gegn Ungverjalandi í milliriðli 1 í Köln í dag, 35:32, en Ísland endaði í fimmta sæti riðilsins.

Númer 100 á listanum

„Ég get samt alveg sagt þér það að það er númer 100 á listanum hjá mér að ætla að fara kenna dómurunum um þetta tap,“ sagði Aron. 

„Við komum okkur í þá stöðu að þurfa að vinna með fimm mörkum, út af slöku gengi í riðlinum, og það er það sem við eigum að horfa í.

Það er lærdómurinn sem við getum dregið af þessu móti því munurinn á okkur í riðlakeppninni og svo í milliriðlinum var gígantískur,“ sagði Aron Pálmarsson í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert