Ísland þarf að treysta á Ungverjaland eftir nauman sigur

Sigvaldi Björn Guðjónsson var markahæstur hjá íslenska karlalandsliðinu í handknattleik þegar liðið vann Austurríki í lokaleik sínum í milliriðli 1 á Evrópumótinu í Lanxess-höllinni í Köln í Þýskalandi í dag.

Leiknum lauk með naumum sigri Íslands, 26:24, en Sigvaldi Björn skoraði 8 mörk úr 8 skotum og var markahæstur.

Sigurinn þýðir að Ísland þarf að treysta á að Ung­verja­land nái í stig gegn Frakklandi á eftir. Þá kemst Ísland í und­an­keppn­i Ólympíuleikanna, gegn því að Egyptaland verði Afríkumeistari í Egyptalandi 27. janúar.

Undankeppni Ólympíuleikanna fer fram dagana 14.-17. mars þar sem leikið verður í þremur fjögurra liða riðlum og verða þrjú evrópsk landslið í tveimur riðlanna. Ekki hefur verið gefið út hvar keppnin muni fara fram en á Ólympíuleikunum fer handboltakeppnin fram frá 25. júlí til 11. ágúst og verður leikið í bæði París og Lille.

Með þessum úrslitum varð draumur Austurríkismanna um að komast í undanúrslit EM að engu og í stað þess að enda í öðru sæti riðilsins geta þeir nú endað í fimmta og næstneðsta sætinu, ef Ungverjar ná í stig á eftir.

Aron kom Íslandi á bragðið

Sigvaldi Björn Guðjónsson fagnar einu af átta mörkum sínum í …
Sigvaldi Björn Guðjónsson fagnar einu af átta mörkum sínum í dag. AFP/Ina Fassbender

Líkt og svo oft áður á mótinu var það Aron Pálmarsson kom íslenska liðinu yfir strax í fyrstu sókn með laglegu gegnumbroti. Boltinn var dæmdur af Austurríki í þeirra fyrstu sókn en Elvar Örn Jónsson átti skot framhjá í næstu sókn Íslands.

Tobias Wagner jafnaði metin af línunni en Aron Pálmarsson svaraði strax þegar hann labbaði í gegnum vörn Austurríkis og kom Íslandi yfir, 2:1.

Viktor Gísli Hallgrímsson varði skot Mykola Bilyk strax í næstu sókn og Sigvaldi Björn Guðjónsson kom Íslandi tveimur mörkum yfir, 3:1, eftir fimm mínútuna leik.

Sebastian Frimmel minnkaði muninn fyrir Austurríki en Aron Pálmarsson negldi boltanum í netið, rétt fyrir utan punktalínu, og íslenska liðið tveimur mörkum yfir, 4:2.

Viktor Gísli varði frá Robert Webber í næstu sókn og Aron keyrði í átt að austurrísku vörninni og fiskaði vítakast. Constantin Möstl varði hins vegar frá Bjarka Má Elíssyni og munurinn áfram tvö mörk.

Möstl varði og varði

Aron Pálmarsson brýst í gegn í leiknum í dag.
Aron Pálmarsson brýst í gegn í leiknum í dag. mbl.is/Brynjólfur Löve

Áfram hélt Viktor Gísli hins vegar að verja í marki íslenska liðsins en Möstl í marki austurríkis gerði það líka og hann varði skot Viggó Kristjánssonar fyrir utan í næstu sókn í íslenska liðsins.

Webber minnkaði muninn í eitt mark úr vítakasti eftir tíu mínútna leik og staðan 4:3, Íslandi í vil.

Möstl varði frá Hauki Þrastarsyni í næstu sókn og Mykola Bilyk jafnaði metin í 4:4.

Aftur varði Möstl frá Hauki Þrastarsyni þegar hann reyndi að vippa yfir hann.

Viktor Gísli varði sitt sjötta skot í leiknum í næstu sókn Austurríkis, frá Webber úr hægra horninu, en markvörðurinn var með 60% markvörslu þegar þrettán mínútur voru liðnar af leiknum.

Áfram hélt Möstl að verja í markinu og Webber kom Austurríki yfir í fyrsta sinn í leiknum eftir fjórtán mínútuna leik, 5:4, með marki úr hraðaupphlaupi.

Mikið jafnræði til að byrja með

Bjarki Már Elísson á vítalínunni en Möstl varði frá honum.
Bjarki Már Elísson á vítalínunni en Möstl varði frá honum. mbl.is/Brynjólfur Löve

Haukur Þrastarson jafnaði metin í 5:5 í næstu sókn með frábæru gegnumbroti og allt jafnt aftur.

Austurríkismenn áttu stangarskot í næstu sókn og Haukur Þrastarson kom Íslandi yfir, 6:5, aftur með frábæru gegnumbroti.

Aftur héldu Austurríkismenn að skjóta í stöngina og Haukur tapaði boltanum í næstu sókn og Wagner jafnaði metin af línunni í 6:6.

Sigvaldi Björn kom Íslandi aftur marki yfir, þegar tæplega tuttugu mínútur voru liðnar af leiknum og Viktor Gísli Hallgrímsson varði frá Janko Bozovic í næstu sókn, hans níunda varða skot.

Janus Daði Smárason kom Íslandi tveimur mörkum yfir á nýjan leik, 8:6, en Lukas Herberger minnkaði muninn í eitt mark með gegnumbroti, 8:7.

Ísland tapaði boltanum klaufalega í næstu sókn en Austurríkismenn köstuðu boltanum út af og Ísland fékk tækifæri til þess að komast aftur tveimur mörkum yfir.

Ísland tók yfir leikinn

Þá varði Möstl frá Elvari Erni Jónssyni og og Mykola Bilyk jafnaði metin í 8:8 þegar 22 mínútur voru liðnar af leiknum.

Elliði Snær Viðarsson kom Íslandi yfir, 9:8, með marki af línunni eftir frábæra sendingu Hauks Þrastarsonar, Viktor Gísli varði frá Bilyk í næstu sókn og Ómar Ingi Magnússon kom Íslandi tveimur mörkum yfir, 10:8, í næstu sókn með frábæru gegnumbroti.

Vörnin varði svo skot Bilyks fyrir utan og íslenska liðið fékk tækifæri til þess að komast þremur mörkum yfir en Ómar Ingi Magnússon skaut framhjá í næstu sókn og staðan áfram 10:8, þegar fimm mínútur voru eftir af fyrri hálfleik.

Viktor Gísli varði frá Bilyk í næstu sókn og Sigvaldi Björn kom Íslandi þremur mörkum yfir í fyrsta sinn í leiknum þegar fjórar mínútur voru eftir af fyrri hálfleik.

Austurríkismenn töpuðu boltanum í næstu sókn þegar það var dæmdur fótur á Brozovic og Sigvaldi Björn kom Íslandi fjórum mörkum yfir með marki úr hraðaupphlaupi, 12:8.

Sex marka forskot í hálfleik

Austurríkismenn köstuðu boltanum frá sér í næstu sókn og Sigvaldi Björn refsaði þeim úr hraðaupphlaupi og munurinn allt í einu orðinn fimm mörk, 13:8.

Wagner fékk tækifæri til þess að minnka muninn í fjögur mörk en Viktor Gísli varði meistaralega frá honum af línunni, hans tíunda varða skot.

Aron Pálmarsson kom Íslandi sex mörkum yfir með sínu fjórða marki þegar 30 sekúndur voru eftir af fyrri hálfleik, Austurríkismenn skutu yfir í næstu sókn og Ísland því sex mörkum yfir í hálfleik, 14:8.

Wagner skoraði fyrsta mark síðari hálfleiks en Sigvaldi Björn Guðjónsson svaraði jafn harðan úr hægra horninu.

Lukas Brosovic minnkaði muninn í fimm mörk fyrir Austurríki, 15:10, og íslenska liðið tapaði boltanum strax í næstu sókn.

Bilyk átti þá skot í stöng en Möstl varði frá Bjarka Má Elíssyni úr vinstra horninu og munurinn áfram fimm mörk á liðunum.

Austurríki át upp forskotið

Boris Zivkovic minnkaði muninn í fjögur mörk með skoti utan teigs og Möstl varði frá íslenska liðinu strax í næstu sókn, austurríska liðið brunaði upp í sókn og minnkaði muninn í þrjú mörk, 15:12

Bilyk minnkaðu muninn í tvö mörk með skoti utan teigs eftir sjö mínútna leik í síðari hálfleik og staðan allt í einu orðin 15:13.

Ómar Ingi fiskaði vítakast þegar rúmlega tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik en Möstl varði vítakast Viggós Kristjánssonar og munurinn áfram tvö mörk, 15:13.

Viktor Gísli varði svo sitt ellefta skot í leiknum frá Wagner í næstu sókn en Austurríki náði frákastinu, og Zivkovic minnkaði muninn í eitt mark með skoti fyrir utan, 15:14.

Þá tók Snorri Steinn Guðjónsson sitt annað leikhlé og Bjarki Már Elísson fékk tækifæri til að koma Íslandi aftur tveimur mörkum yfir en Möstl varði meistaralega frá honum.

Austurríki brunaði upp í sókn og Wagner jafnaði metin í 15:15, þegar rúmlega tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik.

Austurríki komst marki yfir

Boltinn var svo dæmdur af íslenska liðinu strax í næstu sókn og Webber kom Austurríki yfir í fyrsta sinn í langan tíma, 16:15, með marki úr vítakasti.

Janus Daði Smárason jafnaði metin af línunni í 16:15 þegar fimmtán mínútu voru liðnar af síðari hálfleik, annað mark íslenska liðsins í seinni hálfleik, en Bilyk var fljótur að svara fyrir Austurríki og koma þeim aftur yfir, 17:16.

Ísland vann boltann strax strax í næstu sókn og Viggó Kristjánsson brunaði upp í hrapaupphlaup og skoraði.

Austurríki tapaði boltanum í næsti sókn og en vörnin hélt hjá þeim og hún varði skot Arons Pálmarssonar.

Wagner kom Austurríki yfir á nýjan leik, 18:17, með marki af línunni en Sigvaldi Björn Guðjónsson svaraði strax og jafnaði metin í 18:18 með marki úr hægra horninu.

Webber kom Austurríki yfir af vítalínunni en Elliði Snær var fljótur að jafna metin í 19:19 með marki af línunni.

Ísland náði aftur yfirhöndinni

Wagner skaut framhjá af línunni í næstu sókn og Aron Pálmarsson kom Íslandi yfir, 20:19, með frábæru skoti utan teigs.

Boltinn var dæmdur af Austurríki í næstu sókn en Möstl varði frá Aroni í næstu sókn og Ísland áfram einu marki yfir þegar tæplega tíu mínútur voru til leiksloka.

Wagner jafnaði svo metin í 20:20 af línunni þegar átta mínútur voru til leiksloka en Aron kom Íslandi aftur yfir með gegnumbroti, 21:20.

Björgvin Páll varði frá Webber í næstu sókn og Viggó Kristjánsson kom Íslandi tveimur mörkum yfir, 22:20, þegar sjö mínútur voru eftir.

Wagner minnkaði muninn á nýjan leik í eitt mark fyrir Austurríki með marki af línunni, 22:21, en Haukur Þrastarson kom Íslandi aftur tveimur mörkum yfir með frábæru gegnumbroti, 23:21.

Zivkovic minnkaði muninn í eitt mark, 23:22 þegar hann labbaði í gegnum vörn íslenska liðsins og boltinn var svo dæmdur af íslenska liðinu í næstu sókn og Elliði Snær fékk að líta sínu þriðju brottvísun og þar með rautt.

Úrslitin réðust á lokamínútunni

Austurríki nýtt sér liðsmuninn og Mahr jafnaði metin í 23:23 þegar fimm mínútur voru til leiksloka.

Aron Pálmarsson neitaði að gefast upp og hann kom Íslandi yfir á nýjan leik, 24:23, með sínu sjöunda marki í leiknum.

Austurríki skaut yfir úr næstu sókn en Möstl varði frá skot Viggós nokkuð þlgilega í næstu sókn liðsins. Hann reyndi svo skot yfir allan völlinn en boltinn fór rétt yfir framhjá.

Þá tók Snorri Steinn Guðjónsson sitt þriðja og síðasta leikhlé en Möstl hélt áfram að verja og hann varði skot Hauks Þrastarsonar fyrir utan og Ísland áfram marki yfir, 24:23, þegar þrjár mínútur voru til leiksloka.

Aron Pálmarsson fékk tveggja mínútuna brottvísun í næstu sókn Austurríkis en Austurríki tapaði boltanum og Sigvaldi Björn Guðjónsson brunaði upp og skoraði sitt áttunda mark, 25:23, þegar tvær mínútur voru til leiksloka.

Webber minnkaði muninn í eitt mark út vítakasti en Viggó Kristjánsson braut sér leið í gegnum vörn Austurríkis í næstu sókn og fiskaði víti. Hann skoraði úr vítinu og kom Íslandi yfir, 26:24.

Austurríki skaut í stöng í næstu sókn en Aron Pálmarsson kastaði boltanum út af og Austurríki fékk síðustu sókn leiksins sem rann að endingu út í sandinn og Ísland fagnaði tveggja marka sigri.

Ísland 26:24 Austurríki opna loka
60. mín. Boris Zivkovic (Austurríki) á skot í stöng
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert