Mikil neikvæðni í kringum þetta

Janus Daði Smárason.
Janus Daði Smárason. AFP/Ina Fassbender

„Tilfinningin er ekki góð,“ sagði Janus Daði Smárason, leikmaður íslenska karlalandsliðsins í handknattleik, í samtali við mbl.is eftir sigur liðsins gegn Austurríki, 26:24, í lokaleik sínum í milliriðli 1 á Evrópumótinu í Lanxess-höllinni í Köln í Þýskalandi í dag.

Þrátt fyrir sigurinn á Ísland ekki möguleika á því að tryggja sér sæti í undankeppni Ólympíuleikanna eftir þriggja marka sigur Frakklands gegn Ungverjalandi í milliriðli 1 í Köln í dag, 35:32, en Ísland endaði í fimmta sæti riðilsins.

Löngu orðið þreytt

„Þetta er ekki í okkar höndum og að þurfa bíða eftir úrslitum úr öðrum leikjum er löngu orðið þreytt. Þetta er algjör viðbjóður satt best að segja. Botninn dettur úr þessu hjá okkar þegar við komum inn í seinni hálfleikinn. Við verðum staðir og fyrirsjáanlegir en á sama tíma erum við búnir að hamra á þessu allt helvítis mótið. Við gerum okkur seka um barnaleg mistök og maður skammast sín,“ sagði Janus Daði.

Erum sjálfum okkur verstir

Íslenska liðið hefur ekki náð að sýna sitt rétta andlit á mótinu en besta frammistaða liðsins kom í síðasta leik gegn Króatíu á mánudaginn.

„Við gerðum okkur helvíti erfitt fyrir. Það er búið að vera mikil neikvæðni í kringum þetta hjá okkur og hlutirnir aldrei alveg nógu góðir. Við erum sjálfum okkur verstir og þó að við séum ekki að vinna alla leiki þá eigum við að geta sýnt betri frammistöðu. Við mætum alltaf inn á og ætlum að gera betur en endum svo í sama ruglinu. Maður er svekktur út í sjálfan sig,“ sagði Janus Daði í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert