Evrópska handknattleikssambandið hefur tilkynnt sex manna lista yfir bestu vinstri hornamenn Evrópumóts karla í handbolta, en milliriðlum mótsins lauk í gær.
Bjarki Már Elísson er á listanum, ásamt þeim Sebastian Frimmel frá Austurríki, Emil Jakobsen frá Danmörku, Rutger ten Velde frá Hollandi, Norðmanninum Alexander Blonz og Svíanum Hampus Wanne.
Bjarki skoraði 21 mark á mótinu og var fjórði markahæstur í íslenska liðinu á eftir þeim Viggó Kristjánssyni, Aroni Pálmarssyni og Sigvalda Birni Guðjónssyni.
Fyrr í dag var Ómar Ingi Magnússon tilnefndur sem ein besta hægri skytta mótsins.