Ómar Ingi Magnússon, landsliðsmaður í handbolta, er einn af sex leikmönnum sem er tilnefndur sem besta hægri skytta Evrópumótsins af mótshöldurum.
Íslenski landsliðsmaðurinn skoraði 19 mörk í sex leikjum og lagði upp ellefu til viðbótar. Tilnefningin kemur nokkuð á óvart, enda átti Ómar ekki sína bestu leiki á mótinu.
Viggó Kristjánsson skoraði t.a.m. 29 mörk og gaf þrettán stoðsendingar og nýtti skotin sín mun betur á mótinu.
Gerardus Versteijnen úr Hollandi, Portúgalinn Francisco Costa, Gábor Ancsin frá Ungverjalandi, Frakkinn Dika Mem og Mathias Gidsel hjá Danmörku eru einnig tilnefndir.