Leikir karlalandsliðsins í handknattleik á stórmótum eru gjarnan á meðal þeirra sjónvarpsviðburða sem flestir sjá hérlendis á ári hverju.
Ekki er útlit fyrir mikla breytingu á því þetta árið en Gallup hefur birt mælingar fyrir sjónvarpsáhorf á Íslandi aðra vikuna í janúar.
Á því tímabili lék Ísland fyrstu tvo leikina á EM í Þýskalandi sem nú stendur yfir en Ísland lauk í gær keppni á mótinu og fram undan eru undanúrslitin.
Leikirnir tveir voru vinsælustu sjónvarpsviðburðirnir hérlendis samkvæmt niðurstöðum Gallup. Annar leikur liðsins gegn Svartfjallandi fékk mest áhorf aðra vikuna í janúar eða 58%. Tæplega 155 þúsund fylgdust með leiknum í beinni útsendingu á RÚV.
Í öðru sæti á listanum er fyrsti leikur Íslands sem var gegn Serbíu en þá horfðu 137 þúsund á útsendinguna.