Danir í úrslit eftir sigur á Þjóðverjum

Alfreð Gíslason mátti þola tap í undanúrslitum í kvöld.
Alfreð Gíslason mátti þola tap í undanúrslitum í kvöld. AFP/INa Fassbender

Heimsmeistarar Dana eru komnir í úrslit á Evrópumóti karla í handbolta eftir 29:26-sigur á heimamönnum í Þýskalandi í seinni leik undanúrslitanna.

Danmörk mætir Frakklandi í úrslitaleik á sunnudag. Þýskaland, sem Alfreð Gíslason stýrir, mætir Svíþjóð í bronsleiknum þar á undan.

Þjóðverjar voru ögn sterkari í fyrri hálfleik og náðu mest þriggja marka forskoti, 13:10. Tveimur mörkum munaði í hálfleik, 14:12.

Danir voru snöggir að jafna í 14:14 í seinni hálfleik og komst yfir í kjölfarið. Mathias Gidsel kom danska liðinu svo í 26:21 þegar átta mínútur voru eftir. Þjóðverjar náðu að minnka muninn í tvö mörk í blálokin en Danir fögnuðu að lokum þriggja marka sigri.

Emil Jakobsen, Mikkel Hansen og Simon Pytlick skoruðu fimm mörk hver fyrir Dani. Renars Uscins gerði fimm fyrir Þjóðverja og Juri Knorr fjögur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert