Einn frábær hálfleikur

Leikmenn Íslands svekktir þrátt fyrir sigur á Austurríki í lokaumferð …
Leikmenn Íslands svekktir þrátt fyrir sigur á Austurríki í lokaumferð milliriðilsins. AFP/Ina Fassbender

Íslenska karlalandsliðið í handknattleik náði sér aldrei almennilega á strik á nýliðnu Evrópumeistaramóti sem fram fór í Þýskalandi.

Ísland lék í C-riðli keppninnar sem leikinn var í Ólympíuhöllinni í München ásamt Ungverjalandi, Serbíu og Svartfjallalandi.

Íslenska liðið slapp svo sannarlega með skrekkinn í fyrsta leik gegn Serbíu þar sem leiknum lauk með jafntefli, 27:27, og Sigvaldi Björn Guðjónsson jafnaði metin á lokamínútunni.

Fyrsti sigur Íslands kom gegn Svartfjallalandi og þar skoraði Gísli Þorgeir Kristjánsson sigurmarkið þegar 40 sekúndur voru til leiksloka eftir kaflaskiptan leik, lokatölur 31:30.

Lokaleikur liðsins í riðlakeppninni var gegn Ungverjalandi þar sem tvö stig í milliriðli voru í húfi. Eftir jafnan fyrri hálfleik stakk Ungverjaland af í upphafi síðari hálfleiks og fagnaði átta marka sigri, 33:25.

Fyrsti leikur Íslands í milliriðlakeppninni var gegn Alfreð Gíslasyni og lærisveinum hans í Þýskalandi þar sem Þjóðverjar fögnuðu sigri, 26:24, eftir mjög jafnan og spennandi leik.

Næst voru það Frakkar og þar mætti Ísland ofjörlum sínum en Frakkar fögnuðu öruggum sigri, 39:32.

Fyrsti sigur Íslands í milliriðlakeppninni kom svo gegn Króatíu, 35:30, og var þetta jafnframt fyrsti sigur Íslands gegn Króatíu á stórmóti. Síðari hálfleikurinn var langbesti hálfleikur Íslands á mótinu en liðið vann hann 19:12.

Íslenska liðið mætti svo Austurríki í lokaleik sínum en liðið þurfti fimm marka sigur til þess að halda möguleikum sínum á lífi um sæti í undankeppni Ólympíuleikanna. Ísland leiddi 14:8 í hálfleik en liðið skoraði eitt mark á fyrstu fjórtán mínútum síðari hálfleiks og fagnaði naumum sigri, 26:24.

Yfirlýst markmið liðsins fyrir mótið var að tryggja sér sæti í undankeppni Ólympíuleikanna en tveggja marka sigur gegn Austurríki þýddi að Ungverjaland þurfti að taka stig af Frakklandi í næsta leik dagsins til þess að halda ólympíudraumi Íslendinga á lífi. Frakkar fögnuði þriggja marka sigri gegn Ungverjum, 35:32, og draumurinn var þar með úr sögunni.

Slæm nýting Íslendinganna

Tilfinningin eftir mótið er vægast sagt skrítin enda býr ótrúlega margt í íslenska liðinu og lykilmenn liðsins eru allir í stórum hlutverkum hjá sínum félagsliðum sem eru mörg hver með þeim betri í heiminum.

Íslenska liðið átti einn hálfleik á öllu mótinu þar sem allt small og það var síðari hálfleikurinn gegn Króatíu.

Það var í raun eini hálfleikurinn þar sem allir leikmenn liðsins spiluðu á pari og sýndu góða frammistöðu, allir sem einn.

Það sama verður ekki sagt um hina leikina, því miður, og tilfinningin er sú að margir leikmenn liðsins hafi og eigi mjög mikið inni eftir Evrópumótið.

Umfjöllunina má lesa í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert