Frakkar í úrslit eftir lygilegan leik

Elohim Prandi var hetja Frakka.
Elohim Prandi var hetja Frakka. AFP/Ina Fassbender

Frakkland er komið í úrslit Evrópumóts karla í handbolta eftir ótrúlegan 34:30-sigur á Svíþjóð í mögnuðum og framlengdum fyrri leik undanúrslitanna í Köln í kvöld.

Frakkar voru með undirtökin í fyrri hálfleik og munaði sex mörkum í hálfleik, 17:11. Svíar byrjuðu seinni hálfleikinn af gríðarlegum krafti og var staðan orðin 18:18 eftir tæpar tíu mínútur í hálfleiknum.

Eftir það skiptust liðin á góðum köflum og að ná forystunni. Svíþjóð var með 27:25-forskot þegar 30 sekúndur voru eftir. Þá minnkaði Yanis Lenne muninn í eitt mark. Frakkar unnu boltann í næstu sókn en Svíum tókst að brjóta á þann mund sem leiktíminn rann út.

Elohim Prandi gerði sér lítið fyrir og skoraði úr aukakastinu og tryggði Frakklandi framlengingu. Þar reyndist franska liðið sterkara og vann fjögurra marka sigur.

Hugo Descat skoraði átta mörk fyrir Frakkland og Dika Mem sex. Felix Claar gerði níu fyrir Svíþjóð og þeir Hampus Wanne og Max Darj fimm hvor.

Frakkland mætir annað hvort Þýskalandi eða Danmörku í úrslitum en seinni undanúrslitaleikurinn hefst klukkan 19.30.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert