Formleg kvörtun Svía til mótsstjórn Evrópumóts karla í handknattleik vegna marksins ótrúlega sem Elohim Prandi skoraði fyrir Frakkland gegn Svíþjóð í undanúrslitum EM í gær hefur verið vísað frá.
Prandi jafnaði leikinn í 27:27 og tryggði Frakklandi framlengingu með marki beint úr aukakasti eftir að leiktíminn rann út. Frakkar voru svo sterkari í framlengingunni og unnu fjögurra marka sigur.
Prandi lyfti vinstri löppinni upp áður en hann tók skotið, sem er ekki löglegt. Dómararnir frá Norður-Makedóníu sáu hins vegar ekkert athugavert við markið og dæmdu það gilt.
Svíar lögðu síðan fram kvörtun til mótsstjórnar og snéru mótmæli Svía að þeirri staðreynd að dómarar hafi ekki nýtt sér myndbandsdómgæsluna til að vera vissir um að markið væri löglegt.
Fór málið til aganefndar mótsins sem sagðist ekki mega samkvæmt reglum taka upp dóma og nýta myndbandsupptökur eftir leik. Aðeins dómarar og eftirlitsmenn mega nýta tæknina á meðan leik stendur en eru þó ekki skyldugir til þess. Standa því ákvarðanir dómara í leiknum.
Svíþjóð hefur til 20 í kvöld til að áfrýja niðurstöðunni.