Mathias Gidsel, einn albesti handknattleiksmaður heims, er í liði mótsins í fimmta sinn í röð.
Gidsel, sem er 24 ára gamall, var í liði mótsins á síðustu fjórum stórmótum og bætist nú Evrópumótið í ár við.
Er hann þar með einu móti frá því að jafna met króatísku goðsagnarinnar Ivano Balic sem var í liði mótsins sex stórmót í röð. Takist honum að vera í liði mótsins á Ólympíuleikunum í París í sumar jafnar hann þann árangur.
Ásamt Gidsel er liðsfélagi hans Magnus Saugstrup einnig í liði mótsins. Þá er aðeins einn Frakki, andstæðingar Dana í úrslitaleiknum á eftir, í liði mótsins, Ludovic Fabregas. Úrslitaleikurinn hefst klukkan 16:45 og er í beinni textalýsingu á mbl.is
Lið mótsins:
Í marki: Andreas Wolff, Þýskalandi
Vinstra horn: Hampus Wanne, Svíþjóð
Vinstri skytta: Martim Costa, Portúgal
Miðjumaður: Juri Knorr, Þýskalandi
Hægri skytta: Mathias Gidsel, Danmörku
Hægra horn: Robert Weber, Austurríki
Á línunni: Ludovic Fabregas, Frakklandi
Varnarmaður: Magnus Saugstrup, Danmörku