„Ég er alveg sammála því. Þetta mót var allt í lagi hjá honum en ég bara veit að hann getur enn þá meira,“ sagði Sigurður Sveinsson, fyrrverandi landsliðsmaður í handbolta um Aron Pálmarsson, fyrirliða íslenska landsliðsins, í Dagmálum.
Aron spilaði vel á Evrópumótinu í Þýskalandi sem er nýlokið og hafa margir talað um að þetta hafi hreinlega verið hans besta stórmót með landsliðinu frá Ólympíuleikunum árið 2012.
„Mér fannst hann frábær á þessu móti. Þó hann sé ekki alltaf að skora, þá er það ekkert það eina sem hann á að vera að gera. Það var gott flæði í kringum hann, hann steig upp og tók þessi skot þegar þurfti, hann var frábær varnarlega en hann hefur reyndar alltaf verið mjög góður varnarmaður, fólk hefur bara alltaf verið að einblína á sóknarleikinn.
Heilt yfir fannst mér hann mjög góður en ég er samt sammála því að hann á samt inni. Þetta var samt besta mótið hans, engin spurning,“ sagði Ingimundur Ingimundarson, fyrrverandi landsliðsmaður.
Umræðuna um Aron úr þættinum má sjá í heild sinni hér að ofan.